Icelandic
Birt: 2023-02-21 19:53:31 CET
Alma íbúðafélag hf.
Ársreikningur

Alma íbúðafélag hf.: Ársreikningur 2022

Alma íbúðafélag hf.: Ársreikningur 2022

Alma íbúðafélag hf.: Ársreikningur 2022

Á fundi sínum í dag samþykkti stjórn Ölmu íbúðafélags hf. ársreikning samstæðunnar fyrir árið 2022. 

Leigutekjur samstæðunnar námu 3.738 m. kr. og aðrar rekstrartekjur námu 661 m.kr. Heildartekjur samstæðunnar námu því 4.399 m. kr. á árinu. EBITDA framlegð ársins var 3.154 m. kr. og hækkaði um 1.228 m. kr.  Handbært fé frá rekstri nam 907 m. kr. Hagnaður ársins nam 5.372 m. kr.

Heildareignir samstæðunnar námu 98,0 mö. kr. þann 31. desember 2022, en þar af voru fjárfestingareignir að andvirði 77,7 ma. kr. Vaxtaberandi skuldir námu 50,4 mö. kr. og eigið fé samstæðunnar var 32,2 ma. kr. Stjórn leggur til við aðalfund að ekki verði greiddur arður til hluthafa.

Ingólfur Árni Gunnarsson, framkvæmdastjóri Ölmu íbúðafélags: 

"Góð eftirspurn var eftir þjónustu félagsins á síðasta ári. Meðaltalsnýting í langtímaleigu íbúðarhúsnæðis hækkaði úr 95% árið 2021 í 97% á síðasta ári og í lok árs var nýtingin komin í rúmlega 98%.  Rekstrarhagnaður af þessari kjarnastarfsemi félagsins fyrir matsbreytingar og afskriftir nam 1.828 m. kr. og hækkaði um tæplega 382 m. kr. frá fyrra ári. Þrátt fyrir að arðsemin af útleigu íbúðarhúsnæðis hafi hækkað í 3,3% á árinu er sú arðsemi of lág til lengri tíma litið.

Við héldum áfram að taka til í eignasafni félagsins og seldum 58 íbúðir sem féllu ekki fullkomlega að fjárfestingarstefnu félagsins. Tiltekt í eignasafninu er langtímaverkefni sem mun setja svip sinn á starfsemi félagsins á komandi árum. Félagið keypti einnig 66 íbúðir á árinu þannig að samantekið jók félagið framboð á leiguíbúðum örlítið á árinu. Félagið heldur áfram að stuðla að heilbrigðum íbúðaleigumarkaði m.a. með því að bjóða viðskiptavinum upp á allt að fimm ára leigusamninga.

Árið 2022 var fyrsta heila árið sem Brimgarðar ehf. og 14. júní ehf. voru inn í rekstrarreikning samstæðunnar og setur það sinn svip á samanburð við rekstur fyrra árs. 

Verðbólga og hækkandi nafnvextir höfðu áhrif á rekstur félagsins. Nær allir leigusamningar samstæðunnar eru verðtryggðir og hækka þannig í takt við verðbólgu. Verðbólgan hefur hins vegar neikvæð áhrif á fjármagnsgjöld og þar sem fjármögnun félagsins er að stórum hluta á breytilegum óverðtryggðum vöxtum kemur hækkun nafnvaxta kröftuglega fram í sjóðsstreymi félagsins. Verðbólgan er einnig stærsti áhrifavaldurinn í jákvæðri matsbreytingu sem nam 8,3 mö. kr. á árinu.

Fjárfestingar samstæðunnar í verðbréfum voru um áramót nær eingöngu í hlutabréfum skráðra fasteignafélaga. Undirliggjandi rekstur skráðu fasteignafélaganna gekk vel á árinu en aðstæður á hlutabréfamarkaði voru óhagstæðar þannig að áhrif af verðbréfafjárfestingum og afleiðusamningum voru neikvæð um sem nemur 1.134 m. kr. á rekstur félagsins 2022.

Á þessu ári munu koma inn í samstæðuna tæplega 10 þúsund m2 af tekjuberandi atvinnuhúsnæði sem verður leigt til tengdra aðila. Við munum halda áfram að vinna með eignasafnið í samræmi við fjárfestingarstefnu félagsins.“

Nánari upplýsingar veitir Ingólfur Árni Gunnarsson framkvæmdastjóri, ingolfur@al.is.

Viðhengi



Arsreikningur Alma ibuafelag hf._Samsta_31.12.2022.pdf