Icelandic
Birt: 2024-08-29 11:01:09 CEST
Síldarvinnslan hf
Árshlutareikningur - 6 mán.

Síldarvinnslan: Uppgjör annars ársfjórðungs og fyrri árshelmings 2024


  • Kolmunnaveiðar gengu vel en verð gáfu eftir.
  • Loðnubrestur hefur áhrif á ársfjórðunginn samanborið við árið áður.
  • Óvissa ríkir enn um bolfiskhlutann en vinnsla hófst á vormánuðum í Grindavík með minna sniði.
  • Útgerðin gekk vel.
  • Kostnaðarliðir að hækka.
  • Niðurstaða ársfjórðungsins óviðunandi.

Helstu niðurstöður úr fjárhagsuppgjöri tímabilsins

  • Tap tímabilsins á öðrum ársfjórðungi nam 1,9 m USD en hagnaður á fyrri árshelmingi nam 9,3 m USD.
  • Rekstrartekjur námu 60,3 m USD á öðrum ársfjórðungi og 141,7 m USD á fyrri árshelmingi.
  • EBITDA var 6,6 m USD eða 10,9% á öðrum ársfjórðungi og 25,8 m USD eða 18,2% á fyrri árshelmingi.
  • Heildareignir samstæðunnar í lok tímabilsins námu 1.043,3 m USD og eiginfjárhlutfall var 59,5%.

Rekstur

Tekjur á öðrum ársfjórðungi námu 60,3 m USD og 141,7 m USD á fyrri árshelmingi samanborið við 79,6 m USD á öðrum ársfjórðungi 2023 og 211,0 m USD á fyrri árshelmingi 2023. Rekstrartekjur drógust saman um 19,2 m USD á öðrum ársfjórðungi miðað við sama tímabil árið 2023, eða um 24,2%. Tekjusamdrátturinn skýrist einkum af því að nær engar loðnuafurðir voru seldar á öðrum ársfjórðungi ársins 2024 vegna loðnuleysis svo og vegna atburða sem rekja má til jarðhræringanna við Grindavík.

Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir (EBITDA) á öðrum ársfjórðungi nam 6,6 m USD eða 10,9% af rekstrartekjum, en á öðrum ársfjórðungi 2023 var EBITDA 21,1 m USD eða 26,5% af rekstrartekjum. EBITDA dregst því saman um 14,5 m USD á milli tímabila. Á fyrri árshelmingi 2024 var EBITDA 25,8 m USD eða 18,2%. Til samanburðar var hún 60,7 m USD eða 28,8% á fyrri árshelmingi 2023.

Tap fyrir tekjuskatt var 2,2 m USD samanborið við hagnað uppá 16,6 m USD á öðrum fjórðungi 2023. Á fyrri árshelmingi var hagnaður fyrir tekjuskatt 11,7 m USD samanborið við 53,0 m USD á fyrri árshelmingi 2023. Tekjuskattur var -0,3 m USD og tap annars ársfjórðungs 2024 nam því 1,9 m USD samanborið við 13,2 m USD hagnað annars fjórðungs 2023. Hagnaður á fyrri árshelmingi var því 9,3 m USD samanborið við 42,7 m USD á fyrri árshelmingi 2023.

Efnahagur

Heildareignir námu 1.043,3 m USD í lok júní 2024. Þar af voru fastafjármunir 869,6 m USD og veltufjármunir 173,6 m USD. Í lok árs 2023 námu heildareignir 1.098,9 m USD og þar af voru fastafjármunir 889,3 m USD og veltufjármunir 209,6 m USD.

Fastafjármunir dragast saman um 19,7 m USD en veltufjármunir um 36,0 m USD.

Fjárhagsstaða félagsins er sterk og nam eigið fé 620,4 m USD í lok júní 2024 og var eiginfjárhlutfall 59,5%. Samanborið nam eigið fé í lok árs 2023 alls 644,5 m USD og eiginfjárhlutfallið 58,6%.

Heildarskuldir og -skuldbindingar félagsins voru 422,9 m USD og lækkuðu um 31,6 m USD frá áramótum. Vaxtaberandi skuldir voru 282,3 m USD í lok tímabilsins og lækkuðu um 22,4 m USD frá áramótum.

Sjóðstreymi

Handbært fé frá rekstri nam 39,4 m USD á fyrri árshelmingi 2024 en var 29,7 m USD á fyrri árshelmingi 2023. Fjárfestingahreyfingar voru neikvæðar um 4,3 m USD og fjármögnunarhreyfingar neikvæðar um 40,9 m USD. Handbært fé í lok tímabilsins nam 75,5 m USD.

Meginniðurstöður í íslenskum krónum á öðrum ársfjórðungi og fyrri árshelmingi 2024

Séu niðurstöður rekstrarreiknings ársfjórðungsins og fyrri árshelmings reiknaðar í íslenskum krónum á meðalgengi tímabilsins (1 USD=138,22 kr) voru rekstrartekjur ársfjórðungsins 8,3 milljarður, EBITDA 0,9 milljarðar og tap 0,3 milljarðar. Fyrir árshelminginn námu rekstrartekjur 19,6 milljörðum, EBITDA 3,6 milljörðum og hagnaður 1,3 milljörðum. Séu niðurstöður efnahagsreiknings reiknaðar í íslenskum krónum á gengi 30. júní 2024 (1 USD=139,09 kr) námu eignir samtals 145,1 milljörðum, skuldir 58,8 milljörðum og eigið fé 86,3 milljörðum.

Samþykkt árshlutareiknings

Árshlutauppgjör fyrri árshelmings 2024 var samþykkt á stjórnarfundi Síldarvinnslunnar 28. ágúst 2024. Árshlutareikningurinn er í samræmi við alþjóðlega reikningsskilastaðla (IFRS - International Financial Reporting Standards).

Kynningarfundur 30. ágúst 2024

Rafrænn kynningarfundur fyrir markaðsaðila og fjárfesta verður haldinn á vefstreymi föstudaginn 30. ágúst klukkan 08:30. Streymið verður aðgengilegt á vefsíðu Síldarvinnslunnar https://svn.is/fjarfestar/streymi/. Streymið verður einnig aðgengilegt á streymisrás Síldarvinnslunnar á YouTube https://www.youtube.com/channel/UC-7V1TcKj92J5Mc9OMMcFZQ/videos Þá verður hægt að senda spurningar á netfangið fjarfestir@svn.is og reynt verður að svara þeim á kynningarfundinum eftir fremsta megni.

Frá forstjóra

Reksturinn á ársfjórðungnum er óviðunandi. Þrátt fyrir mikla kolmunnaveiði er afkoman undir væntingum. Má rekja það til minni nýtingar á mjöli og lýsi, hárra hráefnisverða og aukins orkukostnaðar hjá verksmiðjunum. Mjöl og lýsisverð gáfu einnig eftir á fjórðungnum en hafa verið að hækka undanfarið.

Við fluttum saltfiskvinnslu okkar yfir í Helguvík á fjórðungnum og gekk sú vinnsla þokkalega. Vinnsla í frystihúsinu og saltfisknum í Grindavík hófst að nýju í maí með minna sniði og var í gangi fram að sumarleyfum. Vinnsla hófst aftur eftir sumarleyfi og þrátt fyrir eldgos er starfsemi í vinnslunum. Starfsmenn búa flestir í nágrannasveitarfélögum.

Uppgjörið ber glögglega merki loðnubrestsins í vetur en lítið var um sölu á loðnuafurðum á fjórðungnum sem sést vel í samanburði við fyrra ár.

Makrílvertíðin í sumar hefur gengið vel og búið að framleiða meira af afurðum en fyrir ári síðan í frystihúsinu. Markaðir eru sterkir og verð hafa hækkað.

Síldarvertíð hefst í framhaldinu af makrílnum og er útlit þar gott og markaðir í góðu jafnvægi. Þrátt fyrir niðurskurð í kvótum sjáum við fram á að vinna meira hlutfall til manneldis í ár.

Nýtt kvótaár er að hefjast og vonumst við til að geta nýtt vinnslur okkar í Grindavík en það er að sjálfsögðu háð þeirri óvissu sem umlykur svæðið vegna eldsumbrota.

Verð á erlendum mörkuðum tekur ekki mið af verðbólgu og kostnaðarhækkunum á Íslandi. Því þarf að leita leiða til að minnka kostnað í okkar rekstri.

Íslenskur sjávarútvegur selur afurðir sínar á erlendum samkeppnismörkuðum þar sem við erum í samkeppni við stóra erlenda aðila. Því er mikilvægt að sjá aukið samstarf fyrirtækja í markaðssetningu íslensks sjávarfangs erlendis. Í því ljósi komu viðbrögð Samkeppniseftirlitsins okkur á óvart þegar Síldarvinnslan hugðist kaupa 50% hlut í sölufyrirtækinu Ice Fresh Seafood sem starfar eingöngu á erlendum mörkuðum.

Aukinn orkukostnað má rekja til skerts aðgengis að raforku og aukinnar olíunotkunar verksmiðjanna. Það er óásættanlegt að geta ekki nýtt þá grænu fjárfestingu sem fyrirtækin hafa lagt út í til að lækka kolefnisspor sitt með því að geta nýtt endurnýjanlega orku. Skortur á raforku til fiskimjölsiðnaðarins hefur fært okkur mörg ár aftur í tímann þegar kemur að útblæstri.  

Kostnaðarauki við að fara yfir á olíu úr rafmagni er 300 milljónir þar af er kolefnisgjald 100 milljónir á fyrstu 6 mánuði ársins. Deila má um hversu sanngjarn sá skattur er þegar ekki er hægt að fá raforku.

Arctic Fish var með gott 6 mánaða uppgjör og útlit framundan er bjart. Félagið hefur leyfi fyrir rúmum 29 þús. tonnum og er verkefnið þar að halda vel utan um eldið og koma leyfum í nýtingu.

Almennt er þokkalegt útlit á okkar helstu mörkuðum og eftirspurn góð. Verð hafa verið að styrkjast.

Óvissa með komandi loðnuvertíð er enn til staðar en við vonumst til að leiðangrar haustsins gefi okkur fyrirheit um komandi loðnuvertíð.

Þrátt fyrir samdrátt á fyrri hluta ársins teljum við horfur þokkalegur fyrir seinni hluta og sjáum ekki ástæðu til að breyta áætlun okkar um EBITDU ársins upp á 74 til 84 milljónir USD.

Fjárhagsdagatal
3. ársfjórðungur 2024 – 21. nóvember 2024
Ársuppgjör 2024 – 6. mars 2025

Nánari upplýsingar
Gunnþór B. Ingvason, forstjóri

Viðhengi



Sildarvinnslan hf.-Uppgjorskynning 2f2024.pdf
SVN samsta - arshlutareikningur Q2 2024.pdf