Icelandic
Birt: 2024-01-26 17:55:59 CET
Kaldalón hf.
Aðrar upplýsingar sem birtar eru í samræmi við reglur Kauphallarinnar

Kaldalón hf.: Fyrirhuguð kaup að fjárhæð 8 milljarða á tekjuberandi fasteignum og fasteignum í byggingu

Kaldalón hf. („Kaldalón“ eða „félagið“) hefur að undanförnu ýmist fengið samþykkt kauptilboð eða undirritað samninga um kaup á sex fasteignum á höfuðborgarsvæðinu sem nema samtals um 17.000 fermetrum. Um er að ræða 12.084 fermetra af fasteignum í Hafnafirði og í Reykjavík. Auk þess kaupir félagið þrjár fasteignir í byggingu í Hafnafirði sem eru 4.911 fermetrar að stærð og afhentar eru eftir framvindu næstu 12 mánuði. Þá fylgja viðskiptunum 2.559 fermetra byggingaréttur við Klettagarða í Reykjavík. Aukinn rekstrarhagnaður félagsins er áætlaður um 566 m.kr. á ársgrundvelli eftir afhendingu fasteignanna.

Fornubúðir 5

Kaldalón hf. hefur fengið samþykkt kauptilboð í fasteignina Fornubúðir 5, Hafnafirði. Heildarstærð fasteignar er 10.319 m2 og gerir kauptilboð ráð fyrir að fasteignin sé að fullu útleigð til tveggja aðila, þar sem stærri hluti fasteignar er með langtímaleigusamning við Hafrannsóknarstofnun til ársins 2044. Annar hluti húsnæðis inniheldur meðal annars vöruhúsnæði og fyrirtæki í fiskiðnaði.

Byggingarréttur vegna fyrirhugaðrar uppbyggingar á lóðinni er undanskilinn í viðskiptum. Kaupverð fasteignar og tengdra lóðarréttinda er 4.700 m.kr. Aukinn rekstrarhagnaður Kaldalóns eftir afhendingu er áætlaður um 322 m.kr. á ársgrundvelli.

Kauptilboðið er háð hefðbundnum fyrirvörum í fasteignaviðskiptum, svo sem áreiðanleikakönnun og ástandsskoðun, auk annara fyrirvara s.s. gerð nýs leigusamnings um hluta fasteignar.

Arion banki er ráðgjafi í viðskiptum.

Borgahella 29, 31 og 33

Kaldalón hefur undirritað kaupsamning um þrjár fasteignir að Borgahellu, samtals um 4.911 m2. Um nýbyggingar/þróunareignir er að ræða og er afhending til Kaldalóns hf. áætluð í áföngum á fjórða ársfjórðung 2024 og fyrsta ársfjórðung 2025. Fasteignirnar eru vöru- og iðnaðarhúsnæði en undirritaður hefur verið leigusamningur við N1 til ársins 2030 um Borgahellu 29. Ekki hafa verið undirritaðir leigusamningar um Borgahellu 31 og 33, en félagið mun kynna eignirnar til leigu á næstu mánuðum.

Kaupverð fasteigna að Borgarhellu er 1.773 m.kr., en helmingur kaupverðs er tengdur byggingarvísitölu og miðast við  vísitölu í desember 2024. Ekki reiknast hækkun kaupverðs frá lokum árs 2024.

Félagið áætlar að aukinn rekstrarhagnaður Kaldalóns verði um 138 m.kr. á ársgrundvelli eftir afhendingu og útleigu allra þriggja eignanna.

Klettagarðar 11

Kaldalón hefur fengið samþykkt kauptilboð í fasteign að Klettagörðum 11, samtals 1.765,1 m2 fasteign að stærð, auk þess sem lóðinni fylgir  2.559 m2 byggingarréttur. Fasteignin hýsir í dag þjónustufyrirtæki við stærri atvinnutæki.

Kaupverð fasteignar og byggingarréttar er 950 m.kr. en áætlaður aukinn rekstrarhagnaður Kaldalóns eftir afhendingu og gerð nýrra leigusamninga um fasteignina er á bilinu 55 - 60 m.kr. á ársgrundvelli.

Kauptilboðið er háð hefðbundnum fyrirvörum í fasteignaviðskiptum, þar með talið ástandsskoðun fasteigna.

Lambhagavegur 12

Kaldalón hefur undirritað kaupsamning um og fengið afhenta fasteignina Lambhagavegur 12. Um er að ræða 3.918 fermetra lóð þar sem framkvæmdir eru hafnar fyrir nýja þjónustustöð fyrir ökutæki sem mun meðal annars hafa að geyma þvottastöð og eldsneytis- og rafmagnssölu. Kaupverð lóðar og þeirra framkvæmda sem þegar er lokið á lóðinni er 163,8 m.kr. en auk þess mun félagið fjárfesta 440 m.kr. í framkvæmdum fram að afhendingu sem áætluð er á öðrum ársfjórðungi 2025. Leigusamningur hefur verið undirritaður um alla fasteignina til tíu ára frá afhendingu við Orkuna.  

Áætlaður aukinn rekstrarhagnaður Kaldalóns frá afhendingu er 48 m.kr. á ársgrundvelli frá afhendingu.

Fjármögnun kaupa

Ofangreindar fjárfestingar vegna Borgarhellu og Lambhagavegar dreifast yfir 18 mánaða tímabil. Eiginfjárhluti vegna þeirra fjárfestinga hefur verið greiddur með eignum utan kjarnastarfsemi Kaldalóns hf. og handbæru fé. Eftirstöðvar kaupverðs þeirra eigna verða fjármagnaðar með lánsfé og yfirtöku áhvílandi skulda..

Ofangreindar fjárfestingar vegna Klettagarða og Fornbúða verða fjármagnaðar með yfirtöku áhvílandi lána, handbæru fé og lánsfé. Samstæða Kaldalóns hefur verið undir þeim viðmiðunarmörkum í skuldsetningarhlutfalli sem félagið hefur sett sér.

Jón Þór Gunnarsson, forstjóri:

„Í dag tilkynnum við um viðskipti um fasteignir upp á 17 þúsund fermetra. Við frágang og afhendingu fasteigna sem tilkynnt er í dag mun því stærð fasteignasafns Kaldalóns nema um 120 þúsund fermetrum.

Það er ánægjulegt að taktur sé kominn í vöxt félagsins. Áherslur stjórnenda á seinni helmings síðasta árs fóru að stórum hluta í að skrá félagið á aðalmarkað kauphallar og móta framtíðar fjármögnunarramma félagsins. Við höfum náð mjög góðum tökum á rekstrinum og munum því halda áfram vexti félagsins innan þeirrar stefnu sem mörkuð hefur verið, þegar aðstæður á markaði eru okkur hagfelldar. Nánar verður greint frá viðskiptunum á fjárfestakynningu í tengslum við ársuppgjör 2023  þann 8. mars nk. „

Frekari upplýsingar veitir
Jón Þór Gunnarsson, forstjóri
kaldalon@kaldalon.is