English Icelandic
Birt: 2022-02-10 16:35:09 CET
Íslandsbanki hf.
Reikningsskil

Islandsbanki hf.: Afkoma á fjórða ársfjórðungi ársins 2021

Helstu atriði í afkomu fjórða ársfjórðungs 2021 (4F21) – arðsemi umfram arðsemismarkmið og spár greiningaraðila

 • Hagnaður af rekstri Íslandsbanka nam 7,1 ma. kr. á fjórða ársfjórðungi (4F20: 3,5 ma. kr.). Arðsemi eigin fjár var 14,2% á ársgrundvelli (4F20: 7,6%) sem er yfir fjárhagslegum markmiðum bankans og spám greiningaraðila. Helstu ástæður góðrar afkomu eru sterk tekjumyndun, aðhald í rekstri, jákvæð virðisbreyting útlána og auknar tekjur af aflagðri starfsemi.
 • Hreinar vaxtatekjur jukust um 4,7% á milli ára og námu 8,6 ma. kr. á 4F21 samanborið við 8,3 ma. kr. á 4F20. Hækkunin á milli ára skýrist af stækkun lánasafns bankans á árinu. Vaxtamunur nam 2,4% á 4F21 samanborið við 2,5% á 4F20.
 • Hreinar þóknanatekjur jukust um 27,5% á milli ára og námu samtals 3,7 ma. kr. á 4F21 samanborið við 2,9 ma. kr. á 4F20. Auknar tekjur í greiðslumiðlun, eignastýringu og fjárfestingarbanka sem og verðbréfaviðskiptum leiddu hækkunina.
 • Bankinn leggur aðaláherslu á kjarnastarfsemi og á 4F21 námu vaxta- og þóknanatekjur samanlagt 94% af rekstrartekjum samanborið við 92% á 4F20. Þessir tveir tekjuliðir jukust um 10,5% á milli 4F20 og 4F21.
 • Hreinar fjármunatekjur námu 646 m.kr. á 4F21 samanborið við 783 m.kr. á 4F20. Jákvæðar virðisbreytingar verðbréfa mynda stóran hluta af hreinum fjármunatekjum á 4F21.
 • Stjórnunarkostnaður nam 5,8 ma. kr. á 4F21 sem er lækkun um 5,0% frá 4F20 og má rekja til áframhaldandi hagræðingar í rekstri.
 • Kostnaðarhlutfall bankans lækkaði á milli ára í 45,3% á 4F21, sem er í takt við 45,0% markmið bankans, úr 51,7% á 4F20, aðallega vegna sterkrar tekjumyndunar og hagkvæmari reksturs.
 • Virðisrýrnun var jákvæð á 4F21 um 0,6 ma. kr. og skýrist helst af batnandi útliti í ferðaþjónustu. Á 4F20 var virðisrýrnun neikvæð um 1,8 ma. kr. Áhættukostnaður útlána (e. cost of risk) var -0,23% á ársgrundvelli á 4F21 samanborið við 0,73% á 4F20.
 • Hagnaður af aflagðri starfsemi til sölu var 1,1 ma. kr. á 4F21 samanborið við 173 m.kr. á 4F20. Hækkun milli ára skýrist af hagnaði dótturfélags af seldum eignarhlut sem og af sölu lands, sem hafði verið flokkað sem aflögð starfsemi.
 • Útlán til viðskiptavina jukust um 4,9 ma. kr. á fjórðungnum, eða um 0,5% og voru 1.086 ma. kr. í árslok 2021. Aukninguna má rekja til húsnæðislána.
 • Innlán frá viðskiptavinum drógust saman um 10,4 ma. kr. á fjórða ársfjórðungi 2021 eða um 1,4% eftir mikinn vöxt fyrr á árinu.
 • Lausafjárstaða bankans er áfram sterk og öll lausafjárhlutföll vel yfir innri viðmiðum bankans og kröfum eftirlitsaðila.
 • Eigið fé bankans nam 203,7 ma. kr. í lok árs 2021 og eiginfjárhlutfall bankans var 25,3%, samanborið við 23,0% í árslok 2020. Eiginfjárhlutfall almenns þáttar 1 var 21,3% í árslok 2021 samanborið við 20,1% í árslok 2020. Það er vel yfir uppfærðu markmiði bankans sem er ~16,5%.

Helstu atriði í afkomu ársins 2021 – viðsnúningur frá fyrra ári vegna jákvæðrar virðisrýrnunar

 • Hagnaður af rekstri Íslandsbanka á árinu 2021 nam 23,7 ma. kr. (2020: 6,8 ma. kr.). Arðsemi eigin fjár var 12,3% á ársgrundvelli samanborið við 3,7% fyrir árið 2020.
 • Hreinar vaxtatekjur námu samtals 34,0 ma. kr. á árinu 2021 sem er hækkun um 2,0% á milli ára og skýrist af stærra lánasafni. Vaxtamunur fyrir árið 2021 var 2,4% samanborið við 2,6% á árinu 2020 þar sem voru að meðaltali lægri á árinu 2021.
 • Hreinar þóknanatekjur hækkuðu um 22,1% á milli ára og námu samtals 12,9 ma. kr. á árinu 2021. Vöxturinn dreifist nokkuð jafnt eftir liðum sem sýnir sterkan tekjugrunn.
 • Hreinar fjármunatekjur námu 2,5 ma. kr. á árinu 2021 samanborið við tap árið 2020 að fjárhæð 1,4 ma. kr. þar sem markaðsaðstæður voru betri á árinu 2021.
 • Stjórnunarkostnaður hækkaði um 2,0% á milli ára en hækkunina má aðallega rekja til einskiptiskostnaðar í tengslum við skráningu bankans eða um 521 m.kr. Launakostnaður jókst um 3,7% á árinu sem má rekja til kjarasamningshækkana, einskiptiskostnaðar vegna skráningar bankans og hærri kostnaðar vegna starfsloka.
 • Kostnaðarhlutfall lækkaði verulega á milli ára, úr 54,3% árið 2020 í 46,2% árið 2021.
 • Hrein virðisrýrnun á árinu 2021 var jákvæð um 3,0 ma. kr. samanborið við neikvæða virðisrýrnun að fjárhæð 8,8 ma.kr. á árinu 2020. Jákvæð virðisrýrnun er aðallega tilkomin vegna bjartari horfa í ferðaþjónustu en á árinu 2020 var neikvæð virðisrýrnun tengd upphafi heimsfaraldurs COVID-19. Áhættukostnaður útlána var -0,28% á ársgrundvelli fyrir árið 2021 samanborið við 0,91% árið 2020.
 • Útlán til viðskiptavina jukust um 7,9% á árinu 2021, sem má að mestu rekja til aukinna umsvifa á húsnæðislánamarkaði.
 • Í lok árs 2021 hafði hlutfall lána með laskað lánshæfi (vergt bókfært virði) lækkað í 2,0% úr 2,9% í lok árs 2020, aðallega vegna uppgreiðslu lána á stigi 3.
 • Innlán frá viðskiptavinum jukust um 64,6 ma. kr. á árinu 2021, eða 9,5%, sem má að mestu rekja til aukningar innlána hjá Viðskiptabanka en innlán jukust einnig hjá Einstaklingum.
 • Vogunarhlutfall var 13,6% í lok árs 2021, óbreytt frá lok árs 2020.
 • Tilskipun (ESB) 2014/59 um tapsþols- og endurfjármögnunargetu fjármálafyrirtækja (BRRD I) var m.a. innleidd á Íslandi með lögum nr. 70/2020 um skilameðferð lánastofnana og verðbréfafyrirtækja (hér eftir lögin). Þann 8. desember 2021 birti Seðlabanki Íslands stefnu um ákvörðun lágmarkskröfu um eiginfjárgrunn og hæfar skuldbindingar (e. MREL), sbr. 17. gr. laganna. Stefnan tilgreinir ekki endanlega MREL-kröfu niður á einstök fjármálafyrirtæki en setur fram aðferðarfræði skilavaldsins við útreikning kröfunnar og væntanlega tímalínu innleiðingar. Samkvæmt MREL-stefnunni stefnir skilavaldið að birtingu MREL-krafna fyrir íslensk fjármálafyrirtæki í byrjun árs 2022 og miðað við stöðuna í dag er útlit fyrir að bankinn muni uppfylla MREL vel umfram kröfur. Undirskipan (e. subordination requirement) samkvæmt tilskipun (ESB) 2019/879 um tapþols- og endurfjármögnunargetu fjármálafyrirtækja (BRRD II) hefur ekki verið skilgreind en tekið er fram að undirskipan muni verða skilgreind við innleiðingu BRRD II í íslensk lög. Líkt og í öðrum löndum Evrópu er líklegt að  lokafrestur til að uppfylla endanlega MREL kröfu verði frá og með janúar 2024.
 • Samhliða birtingu ársreiknings fyrir árið 2021 birtir bankinn árs- og sjálfbærniskýrslu, áhættuskýrslu (e. Pillar 3 Report) ásamt áhrifaskýrslu fyrir sjálfbæran fjármálaramma bankans.

Uppfærð fjárhagsmarkmið

 • Stjórn Íslandsbanka samþykkti uppfærð fjárhagsmarkmið á 4F21 í ljósi góðrar afkomu og hærra vaxtaumhverfis.
Fjárhagsmarkmið Uppfærð markmið Fyrri markmið
     
Arðsemi eigin fjár >10% 8-10% fyrir 2023, >10% langtíma
Kostnaðarhlutfall <45% <45% fyrir 2023
Eiginfjárhlutfall almenns þáttar 1 ~16,5% >16%, Eiginfjárhlutfall: 18,3-19,8%
Arðgreiðsluhlutfall óbreytt ~50%
 • Eftir því sem íslenska hagkerfið tekur við sér gerir bankinn ráð fyrir því að lánasafnið og þóknanatekjur vaxi í takt við verga landsframleiðslu og aukin umsvif í efnahagskerfinu. Þrátt fyrir að búist sé við að arðsemi bankans verði á bilinu 8–10% á árinu 2022 þá mun rísandi hagkerfi, hækkandi vaxtaumhverfi og kostnaðaraðhald styðja við markmið bankans um 10% arðsemi til millilangs tíma. Ef áhættukostnaður útlána verður um 30 punktar (0,30%) gæti arðsemi á árinu 2022 orðið við lægri mörk arðsemisbils. Búist er við að kostnaðarhlutfall verði stöðugt á bilinu 45–50% á árinu 2022. 

Bestun efnahagsreiknings, arðgreiðsla og endurkaup

 • Stjórn Íslandsbanka mun leggja til 11,9 ma. kr. arðgreiðslu við aðalfund bankans sem er í samræmi arðgreiðslustefnu bankans.
 • Stefnt er að því að greiða út umfram eigið fé eiginfjárhlutfall almenns þáttar 1, sem metið er á um 40 ma. kr. að frádreginni arðgreiðslu, á næstu 12–24 mánuðum. Stjórn bankans mun leggja til við aðalfund kaup á eigin bréfum að fjárhæð 15 ma. kr. á næstu mánuðum að gefnu samþykki Seðlabanka Íslands. Þrír kostir koma til greina og eru til skoðunar: endurkaupaáætlun, endurkaupatilboð (e. tender offer) eða þátttaka í hlutasölu (e. block sale participation). 

Lykiltölur

    4F21 4F20 2021 2020 2019
REKSTUR Hagnaður tímabils, m.kr. 7,092 3,525 23,725 6,755 8,454
  Arðsemi eigin fjár 14.2% 7.6% 12.3% 3.7% 4.8%
  Vaxtamunur (af heildareignum) 2.4% 2.5% 2.4% 2.6% 2.7%
  Kostnaðarhlutfall¹ 45.3% 51.7% 46.2% 54.3% 58.8%
  Áhættukostnaður útlána (0.23%) 0.73% (0.28%) 0.91% 0.39%
             
    31.12.21 30.9.21 30.6.21 31.12.20 31.12.19
EFNAHAGUR Útlán til viðskiptavina, m.kr. 1,086,327 1,081,418 1,089,723 1,006,717 899,632
  Eignir samtals, m.kr. 1,428,821 1,456,372 1,446,860 1,344,191 1,199,490
  Áhættuvegnar eignir, m.kr. 901,646 917,764 924,375 933,521 884,550
  Innlán frá viðskiptavinum, m.kr. 744,036 754,442 765,614 679,455 618,313
  Útlán til viðskiptavina / innlán frá viðskiptavinum 146% 143% 142% 148% 145%
  Hlutfall lána með laskað lánshæfi² 2.0% 2.0% 2.1% 2.9% 3.0%
             
             
LAUSAFÉ Fjármögnunarhlutfall (NSFR), allir gjaldmiðlar 122% 121% 122% 123% 119%
  Lausafjárhlutfall (LCR), allir gjaldmiðlar 156% 225% 187% 196% 155%
             
             
EIGIÐ FÉ Eigið fé samtals, m.kr 203,710 197,381 190,355 186,204 180,062
  Eiginfjárhlutfall almenns þáttar 1 21.3% 20.6% 20.1% 20.1% 22.4%
  Eiginfjárhlutfall þáttar 1 22.5% 21.8% 20.1% 20.1% 19.9%
  Eiginfjárhlutfall 25.3% 24.7% 22.9% 23.0% 22.4%
  Vogunarhlutfall 13.6% 13.2% 12.4% 13.6% 14.2%

1. Reiknað sem: (stjórnunarkostnaður + framlag í Tryggingarsjóð innstæðueigenda og fjárfesta – einskiptisliðir) / (heildarrekstrartekjur – einskiptisliðir).
2. Stig 3, útlán til viðskiptavina, vergt bókfært virði.

Birna Einarsdóttir, bankastjóri Íslandsbanka

Fjórði ársfjórðungur var góður í rekstri Íslandsbanka og með honum ljúkum við ánægjulegu og viðburðarríku ári 2021. Hlutabréf bankans voru tekin til viðskipta í júní og markaði það upphaf á nýjum kafla í rekstri bankans. Áframhaldandi ráðstafanir bankans vegna COVID-19 og útsjónarsemi starfsfólks bankans í þjónustu við viðskiptavini, í síbreytilegum og krefjandi aðstæðum, stóðu einnig upp úr á árinu.

Á fjórðungnum nam hagnaður bankans 7,1 ma. kr. og arðsemi var 14,2% sem er umfram markmið bankans og væntingar markaðsaðila. Á árinu 2021 nam hagnaðurinn 23,7 ma. kr. og arðsemin 12,3%. Tekjur bankans á fjórðungnum hækkuðu um 8,8% frá fyrra ári og þar af hækkuðu hreinar þóknanatekjur um 27,5% milli ára. Áframhaldandi hagræði í rekstri á fjórðungnum leiddi til lækkunar á kostnaði um 5% frá fyrra ári og raunlækkunar um 9,4%. Kostnaðarhlutfall var við markmið bankans, 45%. Á fjórðungnum hækkaði jákvæð virðisbreyting útlána, sem nam 0,6 ma. kr., og tekjur af aflagðri starfsemi, sem nam 1,1 ma. kr., hagnað bankans. Útlán til viðskiptavina jukust um 4,9 ma. kr. á fjórðungnum eða um 7,9% á árinu 2021. Aukningin var að mestu tilkomin vegna húsnæðislána en þeir viðskiptavinir nutu lægri kjara á árinu þar sem bankinn gat boðið enn samkeppnishæfari vexti í kjölfar vaxtalækkana Seðlabankans á árinu 2020. Innlán frá viðskiptavinum jukust um 9,5% á árinu 2021.

Sjálfbærar lánveitingar jukust um 134% á árinu og nema nú 6% af heildarútlánum bankans. Okkar stærsta tækifæri sem hreyfiafl til góðra verka felst í að styðja við viðskiptavini okkar á sjálfbærnivegferð þeirra og fjármagna vegferðina að kolefnishlutleysi. Sú staðreynd að fjármagnaður útblástur árið 2020 var 360 sinnum hærri en útblástur frá rekstri bankans undirstrikar þetta. Við höfum sett okkur skýr markmið fyrir árið 2022 að auka hlutdeild sjálfbærra lána og munum einnig kynna opinberlega staðfest vísindaleg markmið heildarútblásturs til skamms og meðallangs tíma.

Við höfum lagt okkur fram um að vera hreyfiafl til góðra verka svo viðskiptavinir okkar nái árangri. Á árinu var bankinn meðal annars með mestu veltu á skuldabréfamarkaði, hæstu ávöxtun hlutabréfasjóðs og leiðandi í fyrirtækjaráðgjöf. Jafnframt hafa fyrirtæki í viðskiptum við Íslandsbanka endurtekið mælst ánægðustu viðskiptavinirnir meðal samkeppnisaðila í þjónustukönnunum og á einstaklingshliðinni eru yfir 90% viðskiptavina með húsnæðislán ánægð með þjónustu bankans.

Síðustu misseri höfum við unnið markvisst að því að besta efnahagsreikning bankans og á aðalfundi, sem haldinn verður í mars næstkomandi, munum við óska eftir samþykki hluthafa til að hefja útgreiðslu umfram eiginfjár samhliða árlegri arðgreiðslu í samræmi arðgreiðslustefnu bankans. Við erum spennt fyrir árinu 2022, frekari sölu á eignarhlut ríkisins í bankanum og tækifærunum sem framundan eru með viðskiptavinum okkar og samstarfsaðilum.

Fjárfestatengsl

Vefstreymi föstudaginn 11. febrúar 2022

Íslandsbanki mun halda afkomufund/vefstreymi föstudaginn 11. febrúar kl. 8.30 fyrir fjárfesta og markaðsaðila. Birna Einarsdóttir, bankastjóri og Jón Guðni Ómarsson, fjármálastjóri munu kynna afkomu bankans og helstu atriði í rekstri hans á fjórða ársfjórðungi. Fundurinn fer fram á ensku.

Skráning á fundinn fer fram á þessari síðu. Upptaka af fundinum verður aðgengileg á síðu fjárfestatengsla að honum loknum.

Markaðsaðilar geta einnig hringt inn á fundinn og lagt fram spurningar í gegnum eftirfarandi símanúmer:

Ísland:+354 800 74 37
Danmörk:+45 354 45 577
Svíþjóð:+46 8 566 42 651
Noregur:+47 235 00 243
Bretland:+44 33 330 00 804
Bandaríkin:+1 631 913 1422

Aðgangskóði: 97538113#

Nánari upplýsingar veita:
Fjárfestatengsl – Margrét Lilja Hrafnkelsdóttir, ir@islandsbanki.is. Sími: 844 4033.

Samskiptastjóri – Björn Berg Gunnarsson, pr@islandsbanki.is. Sími: 844 4869.

Póstlisti Íslandsbanka
Ef þú vilt gerast áskrifandi að kauphallarfréttum Íslandsbanka þá vinsamlegast skráðu þig hér: https://www.islandsbanki.is/is/grein/postlisti_ir

Um Íslandsbanka
Íslandsbanki er alhliða banki sem leggur áherslu á að koma til móts við þarfir viðskiptavina sinna og á sér langa sögu sem nær aftur til ársins 1875. Bankinn leggur áherslu á traustan rekstur og að hafa jákvæð áhrif í samfélaginu en hlutverk bankans er að vera hreyfiafl til góðra verka svo viðskiptavinir okkar nái árangri. Með framtíðarsýnina að vera #1 í þjónustu að leiðarljósi vinna þrjár viðskiptaeiningar þétt saman til þess að viðhalda góðum viðskiptasamböndum. Markaðshlutdeild bankans er sterk og rekur bankinn skilvirkasta útibúanetið á landinu og styður um leið við viðskiptavini sína á stafrænni vegferð þeirra. Umhverfið sem bankinn starfar í er eftirsóknarvert og er Íslandsbanki vel í stakk búinn að takast á við tækifærin framundan með öflugar tæknilegar stoðir og sterkan efnahagsreikning. Íslandsbanki er með lánshæfismatið BBB/A-2 frá S&P Global Ratings. Hlutabréf bankans eru skráð á Aðalmarkað Nasdaq Iceland.

Fyrirvari
Framangreind fréttatilkynning gæti vísað til spár um framtíðarhorfur sem er háð áhættu- og óvissuþáttum og getur þýtt að raunverulegur árangur verði umtalsvert frábrugðinn því sem spáð er í þessari fréttatilkynningu. Íslandsbanki hf. hefur ekki skyldu til að, og mun ekki, uppfæra þessar spár um framtíðarhorfur félagsins til að endurspegla atburði og aðstæður sem eiga sér stað eftir útgáfu þessarar fréttatilkynningar. Það er ábyrgð fjárfestis að reiða sig ekki seinna meir á spár um framtíðarhorfur sem eru settar fram í þessari fréttatilkynningu þar sem þær eiga eingöngu við á þeim tíma sem hún er gefin út. Spár um framtíðarhorfur gefa ekki áreiðanlega vísbendingu um framtíðarárangur og eru allar yfirlýsingar um framtíðarhorfur félagsins fullgildar í heild sinni með tilliti til þessa fyrirvara.

Viðhengi4F 2021 Frettatilkynning.pdf
4Q 2021 Factbook.pdf
4Q 2021 Factsheet IS.pdf
4Q 2021 Investor Presentation.pdf
549300PZMFIQR79Q0T97-2021-12-31-en.zip
Islandsbanki_financed_emissions_2020_2019.pdf
Islandsbanki_Sustainability_Statement 2021_vF.pdf
Islandsbanki hf. arsreikningur samstu 2021.pdf