Nasdaq Iceland býður Amaroq Minerals Ltd. velkomið á Aðalmarkaðinn
Reykjavík, 21. september, 2023 — Nasdaq (Nasdaq: NDAQ) tilkynnir að auðlindafélagið Amaroq Minerals (auðkenni: AMRQ) verður í dag skráð á Aðalmarkað Nasdaq Iceland. Félagið tilheyrir efnisvinnslugeiranum (e. Basic materials) og er 20. félagið sem tekið er til viðskipta á mörkuðum Nasdaq Nordic* í ár. Amaroq Minerals var áður skráð á íslenska First North vaxtarmarkaðnum.
Auðlindafélagið Amaroq Minerals var stofnað árið 2017 með megináherslu á að finna gull og aðra verðmæta málma á Suður-Grænlandi, rannsaka og þróa þau svæði þar sem málma er að finna og vinna þessa málma úr jörðu. Verðmætasta eign Amaroq er Nalunaq svæðið, þar sem undirbúningur að vinnslu er langt kominn og vinnsluleyfi sem nær m.a. yfir Nalunaq gullnámuna sem þar var fyrir. Amaroq er einnig með leitar- og vinnsluleyfi á svæði, það stærsta á Suður-Grænlandi og nær það yfir tvö þekkt gullbelti á svæðinu. Eitt af meginmarkmiðum Amaroq Minerals er að byggja upp sjálfbæra námuvinnslu í samstarfi við íbúa Grænlands þar sem hefðir og menning samfélagsins eru höfð í heiðri. Nánari upplýsingar má finna á vefsíðu Amaroq Minerals www.amaroqminerals.com
„Þetta ár hjá Amaroq sem skráð fyrirtæki á First North hefur sýnt okkur að við erum á réttri leið til vaxtar,“ sagði Eldur Ólafsson, forstjóri og stofnandi Amaroq Minerals. „Á þessum tíma höfum við fundið fyrir auknum áhuga fjárfesta á Amaroq, innlendum sem erlendum, og skráning á Aðalmarkað mun gera okkur enn betur kleift að undirbúa okkur undir framtíðarvöxt.
„Amaroq hefur sett svip á íslenska markaðinn á sínum stutta tíma á First North,“ sagði Magnús Harðarson, forstjóri Nasdaq Iceland. „Skráning á Aðalmarkað mun færa Amaroq betri aðgang að stærri hópi fjárfesta og félagið mun njóta aukins sýnileika. Við hlökkum til að halda áfram samstarfi okkar með Amaroq og óskum öllum hjá félaginu og hluthöfum til hamingju með þennan mikilvæga flutning yfir á Aðalmarkaðinn.“
*Aðalmarkaðir og Nasdaq First North í Nasdaq Copenhagen, Nasdaq Helsinki, Nasdaq Iceland og Nasdaq Stockholm.
Um Nasdaq
Nasdaq (Nasdaq: NDAQ) er alþjóðlegt tæknifyrirtæki sem þjónar verðbréfamörkuðum og öðrum atvinnugeirum. Fjölbreytt framboð okkar af markaðsgögnum, greiningarvörum, hugbúnaði og þjónustu gerir viðskiptavinum okkar kleift að láta framtíðarsýn þeirra verða að veruleika. Til að fræðast meira um félagið, tæknilausnir og störf hjá okkur, smellið á LinkedIn, Twitter @Nasdaq eða www.nasdaq.com
Nasdaq tengiliður: Kristín Jóhannsdóttir kristin.johannsdottir@nasdaq.com 868 9836
|