Helstu atriði í afkomu fyrsta ársfjórðungs 2019
VILHELM MÁR ÞORSTEINSSON, FORSTJÓRI
„Afkoma af rekstri Eimskips á fyrsta ársfjórðungi 2019 var yfir væntingum og EBITDA niðurstaða fjórðungsins er sú besta á fyrsta ársfjórðungi frá árinu 2009. Ágætis vöxtur var í tekjum og flutningsmagni milli fjórðunga og ánægjulegt að sjá 9% aukningu í magni í gámaflutningum. Jákvæður viðsnúningur var í afkomu félagsins í Noregi þrátt fyrir minna flutningsmagn þar, sem skýrist m.a. af lægri rekstrarkostnaði en félagið rekur nú tveimur færri skip í Noregi miðað við sama tímabil í fyrra. Áframhaldandi vöxtur hefur verið í Trans-Atlantic flutningum og skipti félagið út einu skipi fyrir stærra skip á siglingaleið félagsins til Norður-Ameríku á tímabilinu til að svara aukinni eftirspurn. Enn fremur var góður vöxtur í alþjóðlegri frystiflutningsmiðlun en afkoma af henni olli nokkrum vonbrigðum á síðasta ári. Góður gangur var í innanlands starfseminni á Íslandi og loks eru hagræðingar- og skipulagsaðgerðir síðustu mánaða byrjaðar að skila sér í batnandi afkomu. Eftir mikinn ytri vöxt síðustu ár hafa verkefni þessa ársfjórðungs m.a. verið að skerpa á áherslum í rekstri og samþætta aðskildar einingar í sömu starfsemi með það að markmiði að auka skilvirkni og arðsemi.
Þrátt fyrir bætta afkomu af rekstri er engu að síður tap eftir skatt á tímabilinu. Þar spilar stærst einskiptis skattaleg gjaldfærsla að fjárhæð 3,4 milljónir evra. Eins og kom fram í tilkynningu í mars síðastliðnum tapaði félagið kærumáli fyrir Yfirskattanefnd. Málið fjallaði um hvort skattleggja skyldi afkomu erlendra eignarhaldsfélaga skipa félagsins í móðurfélaginu á Íslandi samkvæmt svokölluðum CFC reglum. Úrskurður Yfirskattanefndar er félaginu mikil vonbrigði og skekkir enn frekar samkeppnisstöðu kaupskipaútgerðar íslenskra félaga og er á skjön við þá umgjörð sem búin er kaupskipaútgerðum í löndunum í kringum okkur.
Við erum ánægð með að hafa fengið formlegt samþykki Samkeppniseftirlitsins fyrir samstarfi Eimskips og Royal Arctic Line sem er búið að vera í undirbúningi í nokkur ár. Með samstarfinu opnast nýir möguleikar fyrir hagkvæmara siglingakerfi fyrir Eimskip sem og nýjar leiðir í flutningum til og frá Grænlandi með vikulegum siglingum. Þannig skapast tækifæri fyrir okkar viðskiptavini meðal annars til aukinna viðskipta við Grænland. Í tengslum við fyrirhugað samstarf er Eimskip með tvö 2.150 gámaeininga skip í smíðum sem gert er ráð fyrir að verði komin í rekstur undir lok þessa árs. Það er mikilvægur liður í því að endurnýja skipaflota félagsins með umhverfisvænni og hagkvæmari skipum.
Stjórnendur og starfsfólk munu halda áfram á þeirri vegferð að samþætta og skerpa á áherslum í rekstri með það að markmiði að bæta rekstrarafkomu félagsins.“
FREKARI UPPLÝSINGAR
Viðhengi