Uppgjör Brims á öðrum ársfjórðungi 2022Góður gangur á fyrri hluta árs - Tekjur Brims af vörusölu voru 242 milljónir evra á fyrri helmingi ársins samanborið við 200 milljónir evra á fyrri árshelmingi 2021. Hagnaður var 49 milljónir evra samanborið við 23 milljónir evra á fyrri helming árs 2021. EBITDA hagnaður var 68 milljónir evra sem nam að hlutfalli 28.1% af tekjum.
- Ástæður aukinna tekna og bættrar afkomu er umfangsmikil og góð loðnuvertíð, hagstæð verð á alþjóðamörkuðum og aukinn ávinningur af fjárfestingum félagsins undanfarin ár í skipum og aflaheimildum, hátæknibúnaði við vinnslu og sölufélögum.
- Efnahagur félagsins hefur styrkst. Eignir hækkuðu um 42 milljónir evra frá áramótum og nam 838 milljónum evra í lok júní 2022. Þar af eigið fé 422 milljónir evra og er því eiginfjárhlutfall 50,4%.
Guðmundur Kristjánsson, forstjóri: „Það var góður gangur hjá okkur í Brimi á fyrri hluta ársins og rekstur í samræmi við væntingar. Við sem störfum í sjávarútvegi vitum að sveiflur geta verið verulegar, bæði lýtur náttúran sínum lögmálum og þá breytast aðstæður á alþjóðamörkuðum hratt eins og við höfum séð á undanförnum árum. Loðnuvertíðin á árinu var góð sem hafði jákvæð áhrif á rekstur félagsins en á móti kemur að dregið var úr veiðiheimildum á þorski. Þá hefur stríð í Evrópu sem hófst í upphafi árs aukið kostnað í rekstri og haft áhrif á markaði fyrir afurðir okkar og aukið á óvissu. Okkur í Brimi hefur borið gæfa til þess undanfarin ár að fjárfesta í skipum, aflaheimildum, hátæknibúnaði í vinnslu og í sölufélögum en þær fjárfestingar hafa gert okkur betur kleift að takast á við sveiflur og nýta tækifærin sem felast í breytingum. Það hefur því verið góður og öruggur vöxtur í starfsemi Brims á árinu. Efnahagur Brims er traustur. Eigið fé hefur aukist og er eiginfjárstaða félagsins góð sem gerir okkur fært að halda áfram á okkar leið að fjárfesta til framtíðar í mikilvægustu hlekkjum í virðiskeðju félagsins.“ Rekstur Seldar vörur námu á 1H 2022 242 m€ samanborið við 200 m€ árið áður. Hækkun rekstrartekna má rekja til mun umfangsmeiri loðnuvertíðar en árið áður. Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir (EBITDA) var 68 m€ eða 28,1% af rekstrartekjum, en var 40 m€ eða 19,9% árið áður. Nettó fjármagnskostnaður var 1 m€ en var 2 m€ á fyrra árshelmingi 2021. Hagnaður fyrir tekjuskatt var 61 m€, samanborið við 30 m€ á fyrra árshelmningi 2021. Tekjuskattur nam 12 m€, en var 6 m€ árið áður. Hagnaður tímabilsins varð því 49 m€ en var 23 m€ árið áður. Efnahagur Heildareignir félagsins námu 838 m€ í lok 2F 2022. Þar af voru fastafjármunir 575 m€ og veltufjármunir 263 m€. Lækkun fastafjármuna má meðal annars rekja til innborgunar á lánveitingum frá tengdum félögum að fjárhæð 56 m€. Fjárhagsstaða félagins er sterk og nam eigið fé 422 m€ og var eiginfjárhlutfall 50,4%, en var 50,0% í lok árs 2021. Heildarskuldir félagsins voru 416 m€ í lok tímabilsins og hækkuðu um 18 m€ frá áramótum. Hækkun skammtímaskulda er meðal annars vegna lokagjalddaga á sambankaláni móðurfélagsins, en unnið er að endurfjármögnun. Sjóðstreymi Handbært fé frá rekstri nam 41 m€ á fyrra árshelmingi, en var 43 m€ á sama tíma 2021. Fjárfestingarhreyfingar voru jákvæðar um 51 m€ og fjármögnunarhreyfingar voru neikvæðar um 26 m€. Handbært fé hækkaði því um 66 m€ og var 143 m€ í lok tímabilsins. Meginniðurstöður færðar til íslenskra króna Séu niðurstöður rekstrarreiknings reiknaðar til íslenskra króna á meðalgengi fyrra árshelmings árins 2022 (1 evra = 141,5 ísk) voru tekjur 34,3 milljarðar króna, EBITDA 9,6 milljarðar og hagnaður 6,9 milljarðar. Séu niðurstöður efnahagsreiknings reiknaðar til íslenskra króna á gengi 30. júní 2022 (1 evra = 138,9 ísk) voru eignir samtals 116,4 milljarðar króna, skuldir 57,8 milljarðar og eigið fé 58,6 milljarðar. Hluthafar Lokaverð hlutabréfa 30. júní 2022 var 86,5 kr. á hlut og var markaðsvirði félagsins þá 167 milljarðar króna. Fjöldi hluthafa var 1.783. Samþykkt árshlutareiknings Árshlutareikningurinn var samþykktur á stjórnarfundi Brims hf. 25. ágúst 2022. Árshlutareikningurinn er í samræmi við alþjóðlega reikningsskilastaðla (IFRS – International Financial Reporting Standards). Kynningarfundur þann 25. ágúst 2022 Kynningarfundur fyrir markaðsaðila og fjárfesta verður haldinn fimmtudaginn 25. ágúst klukkan 16:15 í vöruskemmu við höfuðstöðvar félagsins að Norðurgarði 1 þar sem boðið verður upp á léttar veitingar, þar mun Guðmundur Kristjánsson forstjóri félagsins kynna uppgjörið. Fundinum verður jafnframt streymt og hægt verður að fylgjast með fundinum á www.brim.is/streymi. Velkomið er að senda spurningar fyrir fundinn eða á meðan fundi stendur á netfangið fjarfestatengsl@brim.is. Aðsendum spurningum verður svarað í lok fundar. Brim hf. Brim er öflugt sjávarútvegsfyrirtæki sem starfar í sátt við samfélagið og umhverfið. Við stuðlum að verðmætasköpun í sjávarútvegi með vöruþróun, tæknilausnum og öflugu starfsfólki. Við tryggjum með ábyrgum veiðum og vinnslu, þar sem áhersla er á sjálfbærni og nýsköpun, að sjávarútvegur verði áfram burðarstólpi í íslensku samfélagi. Við leitum allra leiða til að lágmarka áhrif starfseminnar á umhverfið hvort sem er á sjó eða í landi. Fjárhagsdagatal Þriðji ársfjórðungur 17. nóvember 2022 Fjórði ársfjórðungur 24. febrúar 2023 Nánari upplýsingar Nánari upplýsingar veitir Guðmundur Kristjánsson forstjóri, sími 550-1000.
|