English Icelandic
Birt: 2021-10-28 18:04:00 CEST
Eik fasteignafélag hf.
Árshlutareikningur (Q1 og Q3)

Eik fasteignafélag hf.: Árshlutauppgjör fyrstu níu mánuði ársins 2021

  • Rekstrartekjur námu 6.421 m.kr.
  • Virðisrýrnun viðskiptakrafna nam 104 m.kr.
  • Rekstrarhagnaður fyrir matsbreytingu, söluhagnað og afskriftir nam 4.229 m.kr.
  • Heildarhagnaður nam 3.638 m.kr.
  • Handbært fé frá rekstri nam 2.579 m.kr.
  • Bókfært virði fjárfestingareigna nam 103.537 m.kr. í lok tímabilsins.
  • Bókfært virði eigna til eigin nota nam 4.160 m.kr. í lok tímabilsins.
  • Matsbreyting fjárfestingareigna var 3.591 m.kr.
  • Handbært fé nam 3.028 m.kr.
  • Vaxtaberandi skuldir námu 64.463 m.kr. í lok tímabilsins.
  • Eiginfjárhlutfall nam 32,1%.
  • Hagnaður á hlut var 1,07 kr.
  • Virðisútleiguhlutfall var 93,2% í lok tímabilsins
  • Vegnir verðtryggðir vextir námu 3,03% í lok tímabilsins.
  • Vegnir óverðtryggðir vextir námu 3,62% í lok tímabilsins.

Árshlutareikningur Eikar fasteignafélags hf. fyrir tímabilið 1. janúar til 30. september 2021 var samþykktur af stjórn og forstjóra félagsins þann 28. október 2021.

Meðfylgjandi er árshlutaskýrsla sem inniheldur árshlutareikning vegna fyrstu níu mánaða ársins ásamt ítarlegri upplýsingum um rekstur félagsins en fram koma í tilkynningunni.

Rekstur félagsins

Rekstur félagsins gekk vel á fyrstu níu mánuðum ársins 2021 og var afkoman í takt við uppfærða áætlun stjórnenda félagsins. Rekstrartekjur félagsins á fyrstu níu mánuðum ársins 2021 námu 6.421 m.kr. Þar af voru leigutekjur 5.714 m.kr. Rekstrarhagnaður fyrir matsbreytingu, söluhagnað og afskriftir nam 4.229 m.kr. og jókst um 12,1% á milli ára. Hagnaður fyrir tekjuskatt nam 4.545 m.kr. og heildarhagnaður samstæðunnar á fyrstu níu mánuðum ársins 2021 nam 3.638 m.kr.

NOI hlutfall (þ.e. rekstrarhagnaður fyrir matsbreytingu og afskriftir sem hlutfall af leigutekjum) nam 72,7% á fyrstu níu mánuðum ársins 2021 samanborið við 67,5% fyrir sama tímabil 2020.

Fjárfestingareignir félagsins eru metnar á gangvirði í samræmi við alþjóðlega reikningsskilastaðla (IFRS) og stuðst er m.a. við núvirt framtíðarsjóðstreymi einstakra eigna. Breytingar á gangvirði eru færðar undir matsbreytingu fjárfestingareigna sem voru um 3.591 m.kr. á fyrstu níu mánuðum ársins.

Efnahagur félagsins

Heildareignir félagsins námu 112.900 m.kr. þann 30. september 2021. Þar af eru fjárfestingareignir að virði 103.537 m.kr. sem skiptast í fjárfestingareignir í útleigu að fjárhæð 100.043 m.kr., leigueignir 2.357 m.kr., fjárfestingareignir í þróun 698 m.kr., byggingarréttir og lóðir 448 m.kr. og fyrirframgreidd gatnagerðargjöld að fjárhæð 13 m.kr. Eignir til eigin nota námu 4.160 m.kr. og fasteignir í þróun 659 m.kr. Eigið fé félagsins nam 36.188 m.kr. í lok september 2021 og var eiginfjárhlutfall 32,1%. Heildarskuldir félagsins námu 76.711 m.kr. þann 30. september 2021, þar af voru vaxtaberandi skuldir 64.463 m.kr. og tekjuskattsskuldbinding 8.352 m.kr. 

Virðisútleiguhlutfall

Virðisútleiguhlutfall félagsins hefur hækkað um 1,2% frá áramótum og var 93,2% í lok þriðja ársfjórðungs.

Uppfærðar horfur og áhrif vegna COVID-19

Þegar félagið birti uppfærðar horfur þann 10. ágúst síðastliðinn, var EBITDA afkomuspá fyrir árið 2021 á bilinu 5.400 – 5.700 m.kr. miðað við verðlag í júlí 2021. Að teknu tilliti til þeirrar verðbólgu sem verið hefur frá birtingu á uppfærðum horfum, breytingar á eignasafni og leigusamningum áætlar félagið nú að EBITDA ársins verði á bilinu 5.500 – 5.800 m.kr. miðað við verðlag nú í október. Líkt og áður hefur komið fram er afkomuspá félagsins háð áhættu- og óvissuþáttum, einkum áhrifa faraldursins, sem geta þýtt að afkoman verði frábrugðin því sem spáð hefur verið.

Áhrifa COVID-19 á rekstur félagsins gætir ennþá, en þau fara dvínandi. Félagið áætlar að bein áhrif COVID-19 hafi verið á bilinu 185 - 195 m.kr. á fyrstu níu mánuðum ársins og má rekja þau fyrst og fremst til ferðaþjónustufyrirtækja. Áhrifin sjást vel í virðisrýrnun viðskiptakrafna og á rekstri Hótels 1919. Óljóst er til hve langs tíma og hve mikið faraldurinn mun hafa áhrif á rekstur félagsins næstu misserin.

Fjármögnun

Félagið seldi 1.500 m.kr. að nafnverði í skuldabréfaflokkinn EIK 141233 í september á ávöxtunarkröfunni 1,73%. Fyrr á árinu gaf félagið út tvo nýja skuldabréfaflokka, EIK 23 1 og EIK 100327 og voru seldar samtals 4.200 m.kr. að nafnverði í þá flokka. Þessir þrír flokkar hafa verið teknir til viðskipta á Aðalmarkaði Nasdaq Iceland, EIK 23 1 í maí og EIK 100327 og EIK 141233 í september. Þá var skuldabréfaflokkurinn EIK 15 1, sem bar 3,3% vexti greiddur upp í mars síðastliðnum og var uppgreiðslan fjármögnuð að fullu með óverðtryggðu bankaláni.

Vegnir verðtryggðir vextir námu 3,03% í lok fjórðungsins og vegnir óverðtryggðir vextir 3,62%, en félagið leitast ávallt eftir því að hafa sem hagstæðust fjármagnskjör.

Eignasafn félagsins

Félagið hefur fest kaup á tæplega 1.000 fm rými í Síðumúla 15 á árinu og á nú alla eignina við Síðumúla 13 - 15. Auk þess keypti félagið Vatnagarða 24 og 26 sem eru rúmlega 2.300 fermetra verslunar- og iðnaðarhúsnæði sem hýsir höfuðstöðvar Tesla á Íslandi. Allar eignirnar hafa verið afhentar félaginu.

Þá hefur félagið selt Hafnarstræti 4 í miðbæ Reykjavíkur, Fjölnisgötu 3b á Akureyri og Kirkjubraut 28 á Akranesi. Allar eignirnar hafa verið afhentar nýjum eigendum.

Fasteignir innan samstæðunnar eru rúmlega 110 talsins og telja rúmlega 312 þúsund útleigufermetra í rúmlega 650 leigueiningum. Heildarfjöldi leigutaka er yfir 400. Helstu fasteignir félagsins á höfuðborgarsvæðinu eru Borgartún 21 og 21a, Borgartún 26, Suðurlandsbraut 8 og 10, Mýrargata 2-16, Pósthússtræti 2 (Hótel 1919), Smáratorg 3 (Turninn), Smáratorg 1, Álfheimar 74 (Nýi Glæsibær), Grjótháls 1-3 og Austurstræti 5, 6, 7 og 17. Helsta fasteign félagsins utan höfuðborgarsvæðisins er Glerártorg. Stærstu leigutakar félagsins eru Húsasmiðjan, Flugleiðahótel, Ríkiseignir, Landsbankinn, Sýn, Rúmfatalagerinn, Össur, Míla, Deloitte og Síminn.

Stærsti hluti fasteignasafns Eikar er skrifstofuhúsnæði eða 45%. Næst koma verslunarhúsnæði 24%, lagerhúsnæði 14%, hótel 10%, heilsutengt húsnæði 4% og veitinga- og skemmtistaðir 3%. Um 92% fasteigna félagsins eru á höfuðborgarsvæðinu, þar af 38% á fjármála- og viðskiptasvæði Reykjavíkur (aðallega innan póstnúmera 105 og 108), 19% í Smáranum - Mjódd og 17% í miðbæ Reykjavíkur. 8% eignasafnsins er á landsbyggðinni, þar af tæplega 7% á Akureyri.

Breytingar á hlutverkum sviða
Þróun fasteigna og lóða, sem heyrt hefur undir framkvæmdasvið, heyrir nú undir viðskiptaþróun.

Breytt fjárhagsdagatal 2021

Stefnt er að birtingu ársuppgjörs og aðalfundi á neðangreindum dagsetningum:

Ársuppgjör 2021                                                                    17. febrúar 2022
Aðalfundur 2022                                                                    31. mars 2022

Áður stóð til að stjórnendauppgjör og áætlun yrði birt þann 11. febrúar 2022 og ársuppgjör þann 3. mars 2022. 

Rafrænn kynningarfundur
Rafrænn kynningarfundur verður haldinn föstudaginn 29. október 2021 klukkan 8:30. Garðar Hannes Friðjónsson, forstjóri og Lýður H. Gunnarsson, framkvæmdastjóri fjármálasviðs, munu kynna uppgjörið og svara spurningum að lokinni kynningu.

Skráning á fundinn fer fram hér:

https://origo.zoom.us/webinar/register/WN_CZUoDSvURLyFhz8AcuvsXA

Eftir skráningu fá þátttakendur tölvupóst með nánari upplýsingum.

Nánari upplýsingar veitir:

Garðar Hannes Friðjónsson, forstjóri, gardar@eik.is, s. 590-2200
Lýður H. Gunnarsson, framkvæmdastjóri fjármálasviðs, lydur@eik.is, s. 820-8980

Viðhengi



21.09.30 3F Arshlutaskyrsla 2021.pdf