Icelandic
Birt: 2023-05-04 18:00:23 CEST
Vátryggingafélag Íslands hf.
Árshlutareikningur (Q1 og Q3)

VÍS: Uppgjör 1. ársfjórðungs 2023


Árshlutareikningur félagsins fyrir fyrsta ársfjórðung 2023 var staðfestur af stjórn og forstjóra á stjórnarfundi þann 4. maí.

Helstu niðurstöður 1F 2023

  • Hagnaður tímabilsins var 229 milljónir1, samanborið við hagnað upp á 73 milljónir á sama tímabili í fyrra
  • Afkoma af vátryggingasamningum á tímabilinu var neikvæð um 645 milljónir, samanborið við neikvæða afkomu upp á 269 milljónir á sama tíma í fyrra
  • Samsett hlutfall fjórðungsins var 110,4%, en var 104,7% á sama tíma í fyrra
  • Tekjur af vátryggingasamningum á  tímabilinu voru 6.177 milljónir, í samanburði við 5.779  milljónir í fyrra
  • Afkoma fjárfestinga var 1.058 milljónir, samanborið við 205 milljónir á sama tímabili í fyrra

Guðný Helga Herbertsdóttir, forstjóri VÍS:

„Hagnaður fyrsta ársfjórðungs nam 229 milljónum þrátt fyrir tjónaþungt tímabil. Fyrsti ársfjórðungur er jafnan tjónaþungur enda endurspeglast tíðarfarið vel í okkar bókum. Ríflega hundrað ára kuldamet féll á tímabilinu en það var viðvarandi kuldatíð í sex vikur, eða frá 7. desember til 19. janúar. Þetta var kaldasta sex vikna tímabil í Reykjavík síðan árið 1918 þegar frostaveturinn mikli reið yfir landið. Tvö stórtjón voru hjá okkur á tímabilinu sem telja tæp 4% af tjónahlutfalli; ábyrgðartjón og brunatjón. Við greiddum viðskiptavinum okkar 4,5 milljarða í tjónabætur á fjórðungnum.

Aukning í sölu í fyrsta sinn í sex ár

Við jukum sölu skírteina í fyrsta sinn í sex ár í fjórðungnum, enda hefur verið rík áhersla á sókn hjá félaginu. Við höfum umbreytt nálgun okkar í sölu hjá félaginu með með nýju skipulagi og áherslu á landsbyggðina. Þá hafa aukin umsvif í samfélaginu einnig leitt til fjölgunar trygginga í ákveðnum atvinnugreinum.

Óbreyttar horfur

Einskiptiskostnaður á tímabilinu nam um 130 milljónum og má þar helst nefna forstjóraskipti, ráðgjafakostnað vegna viðræðna um kaup á hlutabréfum í Fossum fjárfestingarbanka og húsnæðisbreytingar fyrir SIV eignastýringu. Þrátt fyrir verðbólgu og kjarasamningsbundnar launahækkanir, þá erum við að halda í við kostnaðinn – en án einskiptisliða erum við nánast með sömu krónutölu milli ára. Hagræðing í rekstri  sýnir að við erum á réttri leið. Samsett hlutfall fjórðungsins er 110,4% (108,3% án einskiptisliða) en var 104,7% á sama tíma í fyrra. Horfur ársins eru óbreyttar – enda er tryggingarekstur sveiflukenndur og horfurnar taka mið af því. Gert er ráð fyrir að samsett hlutfall ársins verði á bilinu 96-98%.

Góð ávöxtun fjáreigna í fjórðungnum

Fjárfestingartekjur í fjórðungnum námu tæpum 1,2 milljörðum og nafnávöxtun var 2,7%. Allir eignaflokkar skiluðu jákvæðri afkomu og var ávöxtun helstu eignaflokka umfram markaðsávöxtun. Önnur skuldabréf hækkuðu mest og skráð hlutabréf þar á eftir. Þess má geta að SIV eignastýring réð til sín tvo starfsmenn í fjórðungnum. Félagið er því vel í stakk búið til að hefja starfsemi um leið og það fær starfsleyfi sem rekstraraðili sérhæfðra sjóða með viðbótarheimild til eignastýringar.

Nýtt skipurit

Undanfarin misseri hefur rík áhersla verið á sókn félagsins og framúrskarandi þjónustu – og nú viljum styðja enn frekar við þá vegferð. Við höfum breytt skipulagi félagsins og myndað kröftuga framkvæmdastjórn sem ég er fullviss um að eigi eftir að verða öflugir liðsmenn í áframhaldandi sókn félagsins á tryggingamarkaði. Ég hlakka til komandi tíma – og samstarfsins með nýrri framkvæmdastjórn.

Tækifæri á markaði

Við sögðum frá því á fjórðungnum að stjórn VÍS og hluthafar Fossa fjárfestingarbanka hefðu ákveðið að hefja viðræður um kaup VÍS á öllu hlutafé í Fossum. Áreiðanleikakannanir eru yfirstaðnar og nú standa yfir viðræður um kaupin og miðar þeim vel áfram. Vert er að geta þess að kaupin yrðu háð skilyrðum um samþykki eftirlitsstofnana og samþykki hluthafa.“

Kynningarfundur

Kynningarfundur vegna uppgjörsins fyrir markaðsaðila og fjárfesta verður haldinn föstudaginn 5. maí, klukkan 8:30 í húsnæði félagsins, Ármúla 3. Guðný Helga Herbertsdóttir, forstjóri, mun kynna uppgjörið og svara spurningum. Hægt verður að fylgjast með fundinum á þessari slóð og þar verður einnig hægt að nálgast upptöku af fundinum sem og kynningarefni fundarins.   

Fjárhagsdagatal 

Annar ársfjórðungur  2023  ||  17. ágúst 2023
Þriðji ársfjórðungur  2023 ||  19. október 2023
Ársuppgjör 2023 || 22. febrúar 2024
Aðalfundur 2024 || 14. mars 2024

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar veitir Erla Tryggvadóttir, samskiptastjóri VÍS, í síma 660-5260 eða með netfanginu erlat@vis.is 




1 Samanburðarfjárhæðum hefur verið breytt til samræmis við IFRS17.


Viðhengi



Afkomutilkynning 1F 2023.pdf
VIS - Samstuarshlutareikningur 31.3.2023.pdf