Kvika banki hf.: Kvika og Landsbankinn undirrita kaupsamning um kaup Landsbankans á TM tryggingumKvika banki hf. („Kvika“ eða „bankinn“) og Landsbankinn hf. rituðu í dag undir kaupsamning um kaup Landsbankans hf. á 100% hlutafjár TM trygginga hf. („TM“). Áreiðanleikakönnun er nú lokið og er kaupsamningurinn með hefðbundnum fyrirvörum, s.s. samþykki fjármálaeftirlits Seðlabanka Íslands og Samkeppniseftirlitsins. Kaupverð samkvæmt kaupsamningi er 28,6 milljarðar króna og mun Landsbankinn hf. greiða fyrir hlutaféð með reiðufé. Kaupverðið miðast við efnahagsreikning TM í lok árs 2023. Endanlegt kaupverð verður aðlagað miðað við breytingar á efnislegu eigin fé TM frá upphafi árs 2024 til afhendingardags en fjárhæð breytingarinnar mun bætast við eða dragast frá kaupverðinu samkvæmt kaupsamningnum. Vinsamlegast athugið að tilkynning þessi er tilkynning á innherjaupplýsingum í samræmi við 17. gr. reglugerðar (ESB) nr. 596/2014 um markaðssvik („MAR“), sem var veitt lagagildi hérlendis með lögum um aðgerðir gegn markaðssvikum nr. 60/2021. Fyrir frekari upplýsingar vinsamlegast hafið samband við Magnús Þór Gylfason, forstöðumann samskipta og hagaðilatengsla, á netfanginu magnus.gylfason@kvika.is
|