Icelandic
Birt: 2023-03-09 16:42:35 CET
Síldarvinnslan hf
Ársreikningur

Síldarvinnslan: Ársuppgjör 2022

Síldarvinnslan: Ársuppgjör 2022

  • Loðnuvertíð var góð í upphafi árs þrátt fyrir að veiði hafi gengið treglega þegar leið á og kvótar ekki náðst að fullu.
  • Veiðar á makríl gengu vel þrátt fyrir miklar fjarlægðir á miðin.
  • Síldveiðar á haustmánuðum gengu vel og stutt var að sækja.
  • Fjárfest var í fiskeldisfyrirtækinu Arctic Fish á Vestfjörðum.
  • Gengið var frá kaupum á Vísi hf. og varð Vísir hluti af samstæðu Síldarvinnslunnar hf. frá 1. desember 2022.
  • Samdráttur varð í veiði bolfiskskipanna sem skýrist af minni aflaheimildum.
  • Markaðir voru sterkir á árinu fyrir flestar afurðir félagsins.
  • Eitt besta ár í sögu fiskimjölsverksmiðjanna.
  • Efnahagur félagsins hefur vaxið með fjárfestingum í fiskeldi og auknum bolfiskheimildum.
  • Heilt yfir mjög gott ár að baki. Eitt besta rekstrarár Síldarvinnslunnar hf. til þessa.

Helstu niðurstöður úr fjárhagsuppgjöri tímabilsins

  • Hagnaður ársins var 75,6 m USD og 13,1 m USD á fjórða ársfjórðungi.
  • Rekstrartekjur ársins námu 310,1 m USD og 63,2 m USD á fjórða ársfjórðungi.
  • EBITDA var 104,6 m USD eða 33,7% á árinu og 20,6 m USD eða 32,6% á fjórða ársfjórðungi.
  • Heildareignir samstæðunnar í lok ársins námu 1.060 m USD og eiginfjárhlutfall var 55%.

Rekstur

Tekjur á árinu 2022 námu 310,1 m USD og 63,2 m USD á fjórða ársfjórðungi samanborið við 237,2 m USD árið 2021 og 65,8 m USD á fjórða ársfjórðungi 2021. Rekstrartekjur jukust þannig um 72,9 m USD á milli ára eða 30,7%. Tekjuaukningin skýrist fyrst og fremst af aukinni loðnuveiði og eins hækkuðu verð á nánast öllum afurðum á milli ára.

Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir (EBITDA) á árinu 2022 var 104,6 m USD eða 33,7% af rekstrartekjum. Á árinu 2021 var EBITDA 84,6 m USD og 35,7% af rekstrartekjum. Aukning á milli tímabila nemur því 20,0 m USD. Á fjórða ársfjórðungi 2022 var EBITDA 20,6 m USD eða 32,5% af rekstrartekjum en hún var 24,9 m USD eða 37,9% af rekstrartekjum á fjórða ársfjórðungi 2021.

Hagnaður fyrir tekjuskatt var 91,2 m USD árið 2022 samanborið við 87,4 m USD árið 2021. Á fjórða ársfjórðungi 2022 var hagnaður fyrir tekjuskatt 12,5 m USD samanborið við 23,3 á sama tímabili 2021. Tekjuskattur fyrir árið 2022 var 17,8 m USD og hagnaður ársins því 75,6 m USD samanborið við 87,4 m USD hagnað árið 2021. Hagnaður á fjórða ársfjórðungi var því 13,1 m USD samanborið við 17,4 m USD á sama tímabili 2021. Það er vert að taka fram að um 2,2 m USD af hagnaði ársins 2022 er kominn til vegna sölu fastafjármuna. Eins eru 23,6 m USD af hagnaði ársins 2021 einskiptisliður sem er tilkominn vegna afhendingar á hlutabréfum í SVN eignafélagi til hluthafa Síldarvinnslunnar.

Efnahagur

Heildareignir námu 1.060 m USD í lok desember 2022. Þar af voru fastafjármunir 873,3 m USD og veltufjármunir 186,5 m USD. Í lok árs 2021 námu heildareignir 634,2 m USD og þar af voru fastafjármunir 472,4 m USD og veltufjármunir 161,7 m USD. Fastafjármunir jukust því um 400,8 m USD og munar þar mestu um kaup á 34,2% hlut í Arctic Fish og kaup á Vísi hf. Veltufjármunir jukust um 24,8 m USD. Handbært fé og viðskiptakröfur lækkuðu lítillega á milli tímabilanna á meðan birgðir hækka um 26,5 m USD.

Fjárhagsstaða félagsins er sterk og nam eigið fé 585,3 m USD. Eiginfjárhlutfall var 55,2% í lok tímabilsins en það var 66,6% í lok árs 2021.

Heildarskuldir og skuldbindingar félagsins voru 474,5 m USD og hækkuðu um 262,8 m USD frá áramótum. Vaxtaberandi skuldir voru 325,6 m USD í lok tímabilsins og hækkuðu um 202,4 m USD frá áramótum og skýrist það vegna lántöku í tengslum við fjárfestingu í Arctic Fish og kaupum á Vísi hf.

Sjóðstreymi

Handbært fé frá rekstri nam 87,0 m USD á árinu 2022 en var 62,5 m USD á sama tímabili 2021. Fjárfestingahreyfingar voru neikvæðar um 181,4 m USD og fjármögnunarhreyfingar jákvæðar um 92,4 m USD. Handbært fé í lok tímabilsins nam 77,3 m USD.

Meginniðurstöður í íslenskum krónum á árinu 2022

Séu niðurstöður rekstrarreiknings ársins reiknaðar í íslenskar krónur á meðalgengi ársins (1 USD=135,46 kr.) voru rekstrartekjur 42,0 milljarðar króna. EBITDA nam 14,2 milljörðum króna og hagnaður ársins var 10,2 milljarðar króna. Séu niðurstöður efnahagsreiknings reiknaðar í íslenskar krónur á gengi 31. desember 2022 (1 USD=142,04 kr) voru eignir samtals 150,5 milljarðar króna, skuldir 67,4 milljarðar króna og eigið fé 83,1 milljarður króna.

Samþykkt árshlutareiknings

Uppgjör ársins 2022 var samþykkt á stjórnarfundi Síldarvinnslunnar hf. hinn 9. mars 2023. Ársreikningurinn er í samræmi við alþjóðlega reikningsskilastaðla (IFRS- International Financial Reporting Standards).

Kynningarfundur 9. mars 2023

Rafrænn kynningarfundur fyrir markaðsaðila og fjárfesta verður haldinn á vefstreymi fimmtudaginn 9. mars næstkomandi klukkan 16:30. Streymið verður aðgengilegt á vefsíðu Síldarvinnslunnar https://svn.is/fjarfestar/streymi/. Streymið verður einnig aðgengilegt á streymisrás Síldarvinnslunnar á YouTube https://www.youtube.com/channel/UC-7V1TcKj92J5Mc9OMMcFZQ/videos Þá verður hægt að senda spurningar á netfangið fjarfestir@svn.is og verður reynt að svara þeim á kynningarfundinum eftir fremsta megni.


Frá forstjóra

Reksturinn á fjórða ársfjórðungi var örlítið lakari en árið 2021 og skýrist það fyrst og fremst af því að veitt var talsvert minna magn af loðnu í desember heldur en í desember árið 2021. Veiðar og vinnsla á síld gekk með besta móti á fjórðungnum og héldu veiðar á norsk-íslenskri síld áfram á Austfjarðamiðum. Skipin voru einungis um um þrjár klukkustundir á miðin og lítið var haft fyrir veiðum. Meira magn af íslenskri síld veiddist fyrir utan Austfirði en undanfarin ár. Kolmunnaveiðar í íslensku lögsögunni gengu mjög vel síðastliðið haust.

Árið 2022 er besta rekstrarár í sögu Síldarvinnslunnar hf. Árið einkenndist af góðum gangi í veiðum og vinnslu. Markaðir voru sterkir fyrir afurðir félagsins þrátt fyrir að mikil óvissa og erfiðleikar hafi dunið á okkur í upphafi árs þegar innrás Rússlands í Úkraínu hófst. Fyrsta verkefni ársins var stærsta loðnuvertíð frá árinu 2003 og þrátt fyrir slæm veðurskilyrði og erfiðar aðstæður til veiða þá tókst engu að síður að spila ágætlega úr vertíðinni og framleiða afurðir fyrir mikil verðmæti.

        Kolmunnaveiðar gengu mun betur en undanfarin ár og var minna haft fyrir veiðunum en oft áður. Endurspeglast þessi góða veiði svo í góðu útliti fyrir kolmunna á árinu 2023 en aflaheimildir í kolmunna hafa aukist um 80%. Markaðir fyrir mjöl og lýsi voru sögulega sterkir á árinu. Það er ennþá mikil eftirspurn og verð hafa haldist sterk inn í árið 2023.

        Þrátt fyrir að mikið hafi mælst af makríl í íslenskri lögsögu héldu veiðar áfram að fara fram að mestu í Síldarsmugunni. Veiðisamstarf skipa í makríl skipti sköpum og náði Síldarvinnslan að veiða allar sínar aflaheimildir og hámarka verðmæti á honum.

        Bolfiskskip félagsins fiskuðu vel á árinu þrátt fyrir samdrátt í aflaheimildum frá fyrra ári. Markaðsaðstæður fyrir sjófrystar og landfrystar afurðir félagsins voru góðar allt árið þó svo að markaðir hafi aðeins gefið eftir í lok árs.

Þegar litið er um öxl er tvennt sem stendur sérstaklega upp úr á árinu. Í fyrsta lagi eru það kaup félagsins á þriðjungshlut í fiskeldisfyrirtækinu Arctic Fish á Vestfjörðum og í öðru lagi kaup á öllu hlutafé í Vísi hf. Með kaupunum á Vísi er bolfiskstarfsemi Síldarvinnslunnar styrkt verulega. Vísir rekur tvær vinnslur í Grindavík, gerir út sex skip ásamt því að eiga hlut í erlendum framleiðslu- og sölufyrirtækjum. Það er ljóst að með kaupunum á Vísi fylgja spennandi verkefni og tækifæri til að samþætta rekstur samstæðunnar allt frá veiðum og vinnslu til sölu.

        Með þessum tveimur fjárfestingum hefur efnahagur Síldarvinnslunnar stækkað enn frekar og er það okkar trú að sjávarútvegsfyrirtæki þurfi að hafa sterkan efnahag til að geta tekist á við þær sveiflur sem einkennt geta íslenskan sjávarútveg.

Síldarvinnslan gefur nú út samfélagsskýrslu sína fjórða árið í röð. Skýrslan hefur mikilvægt upplýsingagildi um ófjárhagslega þætti í starfsemi félagsins. Kaflaskipting og skipulag skýrslunnar tekur mið af leiðbeiningum frá Nasdaq Ísland kauphöllinni um svokallaða ESG þætti. Síldarvinnslan vill með gerð skýrslunnar stuðla að auknu gagnsæi og vönduðum vinnubrögðum innan félagsins. Í skýrslunni má meðal annars finna nákvæmt umhverfisbókald samstæðunnar.

Síldarvinnslan er kjölfestufyrirtæki í þeim samfélögum sem félagið starfar í og það er okkar skylda að vera virkir þátttakendur í þeim samfélögum. Í skýrslunni má finna upplýsingar um ýmis samfélagsverkefni sem félagið hefur stutt við. Síldarvinnslan vill vera í fararbroddi sem samfélagslega ábyrgt félag og reynum við ávallt að gera betur og nálgast umhverfið af virðingu þar sem reynt er að lágmarka neikvæð umhverfisáhrif.

Lykillinn að góðum árangri félagsins er öflugt starfsfólk bæði til sjós og lands. Bak við þennan árangur er áratuga reynsla starfsfólks á öllum vígstöðvum, sem hefur lagt mikið á sig á árinu til að ná þeim árangri sem raun ber vitni.

Fjárhagsdagatal
Aðalfundur 2023 – 30. mars 2023
1. ársfjórðungur 2023 – 25. maí 2023
2. ársfjórðungur 2023 – 24. ágúst 2023
3. ársfjórðungur 2023 – 23. nóvember 2023
Ársuppgjör 2023 – 7. mars 2024
Aðalfundur 2024 – 28. mars 2024

Nánari upplýsingar
Gunnþór B. Ingvason, forstjóri

Viðhengi



549300AMNBYFRNGJ9J24-2022-12-31-is.zip
549300AMNBYFRNGJ9J24-2022-12-31-is.zip-viewer.html
Sildarvinnslan hf. - Uppgjorskynning 4. arsfj. 2022 fyrirfund.pdf
SVN samsta - arsreikningur 2022final.pdf