Síminn hf. - Vöxtur í tekjum og bætt afkomaHelstu niðurstöður úr rekstri á 1F 2022 Í árshlutareikningi samstæðu Símans fyrir fyrsta ársfjórðung 2022 er Míla meðhöndluð sem aflögð starfsemi. Hér að neðan er fjallað um rekstur samstæðu Símans án Mílu. - Tekjur á fyrsta ársfjórðungi (1F) 2022 námu 6.093 m.kr. samanborið við 6.018 m.kr. á sama tímabili 2021.
- Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir og fjármagnsliði, EBITDA, nam 1.327 m.kr. á 1F 2022 samanborið við 1.274 m.kr. á sama tímabili 2021 og hækkar því um 53 m.kr. eða 4,2%. EBITDA hlutfallið er 21,8% fyrir fyrsta ársfjórðung 2022 en var 21,2% á sama tímabili 2021. Rekstrarhagnaður EBIT nam 574 m.kr. á 1F 2022 samanborið við 504 m.kr. á sama tímabili 2021.
- Hrein fjármagnsgjöld eru jákvæð sem nemur 92 m.kr. á 1F 2022 en voru neikvæð sem nemur 31 m.kr. á sama tímabili 2021. Fjármagnsgjöld námu 113 m.kr., fjármunatekjur voru 200 m.kr. og gengishagnaður nam 5 m.kr. Breyting í fjármagnsgjöldum er tilkomin vegna breyttrar fjármögnunar í lok 1F 2021 og söluhagnaðar af sölu hluta Símans í Auðkenni á 1F 2022.
- Hagnaður af áframhaldandi starfsemi á 1F 2022 nam 553 m.kr. samanborið við 376 m.kr. á sama tímabili 2021. Hagnaður tímabilsins með aflagðri starfsemi nam 746 m.kr.
- Vaxtaberandi skuldir samstæðu að leiguskuldbindingum meðtöldum námu 8,2 ma.kr. í lok 1F 2022 en voru 8,3 ma.kr. í árslok 2021. Hreinar vaxtaberandi skuldir samstæðu að leiguskuldbindingum meðtöldum voru 4,5 ma.kr. í lok 1F 2022 samanborið við 4,8 ma.kr. í árslok 2021.
- Eiginfjárhlutfall Símans var 43,9% í lok 1F 2022 og eigið fé 30,9 ma.kr.
Orri Hauksson, forstjóri: „Árið fer ágætlega af stað og í takti við væntingar okkar. Allt í senn er hóflegur vöxtur í tekjum, EBITDA og EBIT milli ára á fyrsta fjórðungi. Við erum stolt af slíkri þróun í umbreytingaferlinu sem nú fer fram á samstæðunni og því harða samkeppnisumhverfi sem ríkir á mörkuðum fjarskipta og afþreyingar á Íslandi. Vænta má niðurstöðu Samkeppniseftirlitsins vegna kaupa franska sjóðastýringarfyrirtækisins Ardian á dótturfyrirtæki okkar Mílu nú í sumar. Ýmsar aðgerðir eins og hönnun framtíðar efnahagsreiknings Símans bíða þess að söluferlið verði til lykta leitt, en við viljum þó nýta tímann vel á meðan. Þannig er nú áhersluatriði innan Símans að byggja upp mannauð, þjónustugetu og skipulag félagsins. Verða fjárfestingar auknar tímabundið í þjónustuinnviðum Símans á árinu, til að styrkja félagið fyrir nýja tíma. Við höfum nú auglýst tvær nýjar stöður framkvæmdastjóra hjá félaginu, það er Sölu og þjónustu og Sjálfbærni og menningar. Svið Stafrænnar þróunar og Miðlunar og markaðsmála eru einnig nýmæli og verður þeim stýrt af þeim Erik Figueras og Magnúsi Ragnarssyni, auk þess sem Óskar Hauksson verður áfram framkvæmdastjóri Fjármálasviðs, sem lítið breytist frá núverandi skipulagi. Breytingar á verkefnum innan félagsins munu einnig ná til millistjórnenda og fjölda almennra starfsmanna, en einföldunin sem við hyggjumst ná fram gengur út í gegnum fyrirtækið og styttir boðleiðir innan þess. Starfsfólki samstæðunnar hefur fækkað verulega á undanförnum árum með útvistunum, fyrirtækjasölum og breyttu vinnulagi. Þannig þarf nýtt skipulag félagsins að endurspegla þessa þróun félagsins, auka fjölbreytni við ákvarðanatöku og byggja undir stafræna þjónustu við viðskiptavini á markvissan hátt. Framtíð þjónustukeðju fyrirtækja á borð við Símann byggist á að velja framúrskarandi birgja, vinna náið með þeim og stýra þjónustunni til endanlegra viðskiptavina með öruggum hætti. Við erum því afar sátt við að reiða okkur á óumdeilda tæknibirgja á borð við Ericsson frá Svíþjóð, Cisco frá Bandaríkjunum og SAP frá Þýskalandi. Þar að auki eru Míla og Sensa, sem bráðum verða bæði fyrrum dótturfélög Símans, hluti af lykilbirgjum félagsins. Við nýtum árið líka í að fjárfesta í umbreytingum og uppbyggingu kerfa og þjónustu. Þar má nefna kjarnakerfi 5G, eflda sjónvarpsþjónustu og stafræna verkferla. Við höfum sett á laggirnar nýja þjónustuleið, sem býður saman internet yfir ljósleiðara og farsíma og hefur fengið góðar móttökur. Vöruframboð okkar til einstaklinga, heimila og fyrirtækja mun breytast enn frekar þegar líður á árið. Síminn er þroskað félag sem starfrækir ýmis kerfi frá gamalli tíð en tímamótin í samstæðunni nú eru kjörin til að leggja mörg þeirra af. Sem fyrr getur er Míla enn í eigu Símans, þótt í reikningnum sé hún eign flokkuð til sölu. Félagið hefur fyrir sitt leyti aukið fjárfestingar í ljósleiðaravæðingu heimila landsins, sérstaklega á landsbyggðinni. Þá er 5G sendakerfi Mílu byggt hratt upp um þessar mundir. Ýmsir ytri þættir eru óvissu háðir, eins og jafnan er, en þó í óvenjulega miklum mæli nú. Stríðið í Úkraínu, hækkandi verðlag, þróun ferðamannaiðnaðar á Íslandi og breytingar á gengi krónunnar eru allt þættir sem ekki er hægt að sjá fyrir með vissu. Enn sem komið er hafa þessir þættir samanlagt haft lítil áhrif á rekstur Símans frá því sem gera mátti ráð fyrir og samkvæmt okkar mati má ekki vænta mikilla hreyfinga af slíkum völdum út árið. Þetta mat kemur meðal annars til af því að vissir ytri þættir hafa gagnverkandi áhrif og dempa þannig mögulegt heildarútslag í aðra hvora áttina. Hitt er ljóst, að keðja aðfanga verður áfram hæg af völdum heimsfaraldursins og nú einnig vegna hinna vopnuðu átaka. Hvort tveggja veldur töfum á afhendingu búnaðar. Við getum hins vegar stýrt og haldið jafnvægi í flestum öðrum þáttum rekstrarins og horfum því bjartsýn fram veginn að loknum ágætum fyrsta ársfjórðungi.“ Kynningarfundur 27. apríl 2022 Kynningarfundur fyrir markaðsaðila og fjárfesta vegna uppgjörsins verður haldinn miðvikudaginn 27. apríl 2022 kl. 8:30 í húsnæði félagsins, Ármúla 25, Reykjavík. Hluthafar, fjárfestar og markaðsaðilar eru sérstaklega boðnir velkomnir á fundinn. Á fundinum munu Orri Hauksson forstjóri og Óskar Hauksson fjármálastjóri kynna uppgjör félagsins og svara fyrirspurnum. Kynningarefni fundarins verður hægt að nálgast í fréttakerfi Nasdaq Iceland og á heimasíðu Símans https://www.siminn.is/umsimann/uppgjor. Jafnframt verður hægt að fylgjast með fundinum í netstreymi á vefslóðinni: https://www.siminn.is/fjarfestakynning. Þeir sem vilja bera upp spurningar geta sent þær á fjarfestatengsl@siminn.is og verður þeim svarað í lok fundarins. Nánari upplýsingar um uppgjörið veita: Orri Hauksson, forstjóri Símans, s. 550 6003 (orri@siminn.is) Óskar Hauksson, fjármálastjóri Símans, s. 550 6003 (oskarh@siminn.is)
|