English Icelandic
Birt: 2023-08-15 17:42:06 CEST
Eimskipafélag Íslands hf.
Árshlutareikningur - 6 mán.

Eimskip: Uppgjör annars ársfjórðungs 2023

HELSTU ATRIÐI Í AFKOMU ANNARS ÁRSFJÓRÐUNGS

  • Rekstrarniðurstaða fjórðungsins var nokkuð góð og byggir á traustri niðurstöðu helstu viðskiptaeininga, þrátt fyrir lækkun frá mjög sterkri niðurstöðu síðasta árs eins og vænst var vegna verulega breyttra aðstæðna á alþjóðlegum flutningamörkuðum.
    • Áætlunarsiglingar halda áfram að skila góðri afkomu í krafti framúrskarandi þjónustu og sterks viðskiptamódels.
    • Áframhaldandi sterkur innflutningur til Íslands og góður gangur í Færeyjum og Noregi.
    • Útflutningsmagn frá Íslandi var minna en á síðasta ári, einkum vegna ytri þátta svo sem minni framleiðslu á eldislaxi, almennt minni fiskveiða og minni útflutnings á iðnaðarvöru.
    • Afkoma Innanlandssviðs var heldur lægri en á sama fjórðungi síðasta árs, einkum vegna verðbólguþrýstings og launahækkana.
    • Trans-Atlantic flutningsverð fóru áfram lækkandi í fjórðungnum og magn var niður um 18% frá fyrra ári.
  • Tekjur í fjórðungnum námu 209,5 milljónum evra, sem er lækkun um 73,6 milljónir eða 26% samanborið við sama fjórðung síðasta árs, einkum vegna lægri alþjóðlegra flutningsverða.
  • Rekstrarkostnaður nam 175,2 milljónum evra sem er lækkun um 63,2 milljónir eða 26,5% frá fyrra ári, einkum vegna verulegs samdráttar í kostnaði við aðkeypta flutningsþjónustu.
  • Launakostnaður jókst um 1,9 milljónir evra eða 5,3% vegna fjölgunar stöðugilda og almennra launahækkana, en á móti vega jákvæð gjaldeyrisáhrif um 2,0 milljónir evra.
  • EBITDA í fjórðungnum nam 34,3 milljónum evra og lækkaði um 10,4 milljónir evra eða 23,3% í samanburði við annan ársfjórðung síðasta árs sem var metniðurstaða fyrir annan ársfjórðung.
  • EBIT í fjórðungnum nam 19,4 milljónum evra sem er lækkun um 10,4 milljónir evra eða 34,9%.
  • Afkoma hlutdeildarfélaga nam 3,8 milljónum evra í fjórðungnum, óveruleg aukning um 0,2 milljónir evra frá fyrra ári.
  • Hagnaður eftir skatta nam 17 milljónum evra samanborið við 24,9 milljónir evra á sama tímabili fyrra árs.
  • Sjóðstreymi áfram gott og nam handbært fé frá rekstri 22,2 milljónum evra sem er lækkun um 9,1 milljónir frá fyrra ári, einkum vegna lægri EBITDA hagnaðar.
    • Sterk lausafjárstaða í lok tímabilsins þar sem handbært fé nam 46,3 milljónum evra samanborið við 36,9 milljónir evra í lok sama fjórðung seinasta árs.
    • Greidd var arðgreiða að fjárhæð 22,7 milljónir evra og hlutafjárlækkun að fjárhæð 12,7 milljónir evra í fjórðungnum.
  • Viðhalds- og nýfjárfestingar fyrir fyrstu sex mánuði ársins voru í takt við áætlanir og námu 17,1 milljónum evra samanborið við 9,5 milljónir evra á sama tímabili síðasta árs.

HELSTU ATRIÐI Í AFKOMU FYRSTU SEX MÁNAÐA ÁRSINS

  • Tekjur námu 424,1 milljónum evra, sem er lækkun um 98,7 milljónir eða 18,9% samanborið við sama tímabil síðasta árs.
  • Rekstrarkostnaður nam 357,9 milljónum evra og lækkar um 89,7 milljónir evra samanborið við fyrstu sex mánuði síðasta árs.
  • EBITDA nam 66,2 milljónum evra samanborið við 75,1 milljónir evra á sama tímabili síðasta árs, sem er lækkun um 9 milljónir evra. EBIT nam 35,2 milljónum evra samanborið við 44,9 milljónir evra fyrir sama tímabil síðasta árs.
  • Hagnaður eftir skatta nam 29,5 milljónum evra, samanborið við 35,4 milljóna hagnað á sama tímabili 2022.

VILHELM MÁR ÞORSTEINSSON, FORSTJÓRI

“Niðurstöður annars ársfjórðungs eru nokkuð góðar, þrátt fyrir viðbúna lækkun frá fyrra ári, og staðfesta að þær breytingar sem við höfum gert á rekstrinum á undanförnum árum hafa tekist vel upp. EBITDA nam 34,3 milljónum samanborið við 44,8 milljónir evra á sama tímabili síðasta árs, sem var metniðurstaða fyrir annan ársfjórðung. Þær hagræðingaraðgerðir sem gripið var til á árunum 2019-2022 og var fylgt eftir með innleiðingu á virkri tekjustýringu, styrktu viðskiptamódelið okkar og sköpuðu grundvöll fyrir heilbrigða og sjálfbæra arðsemi af okkar víðfeðmu alþjóðlegu starfsemi. Á hinn bóginn höfum við séð miklar breytingar á alþjóðlegum flutningamörkuðum á síðastliðnum tólf mánuðum, þar sem flutningsverð lækkuðu hratt áður en þau náðu jafnvægi, eftir þær ótrúlegu verðhækkanir sem við sáum vegna flöskuhálsa í flutningakerfum tengt Covid tímanum, en þessi þróun hefur einkum áhrif á Eimskip í gegnum alþjóðlega flutningsmiðlun annars vegar og Trans-Atlantic hluta áætlunarsiglingakerfisins hins vegar. Þá hefur þessi breyting á alþjóðamörkuðum lækkað heildarflutningskostnað viðskiptavina okkar sem er jákvætt.

Áætlunarsiglingakerfið okkar skilaði góðri afkomu í fjórðungnum, þrátt fyrir lítils háttar minnkun í magni. Innflutningur til Íslands hefur haldist sterkur í krafti umsvifa í hagkerfinu, á meðan útflutningur var minni en á fyrra ári, vegna ýmissa ytri þátta svo sem minni framleiðslu á eldislaxi, minni fiskveiða almennt og minni útflutnings á iðnaðarvöru. Við erum ánægð með afkomuna í Færeyjum þar sem umsvifin hafa verið töluverð það sem af er ári, þrátt fyrir minni framleiðslu á eldislaxi en á síðasta ári. Alþjóðlegar markaðsaðstæður höfðu áhrif á afkomu í Trans-Atlantic þjónustu okkar þar sem við sáum flutningsverð lækka hratt og magn minnka frá fyrra ári á meðan bandaríska hagkerfið hægði á sér og alþjóðleg skipafélög færðu afkastagetu af flutningsleiðum tengdum Asíu yfir á Trans-Atlantic leiðir. Alþjóðleg flutningsmiðlun Eimskips skilaði nokkuð góðri afkomu í fjórðungnum, þrátt fyrir lækkun frá fyrra ári sem var viðbúið vegna mikilla breytinga á alþjóðlegum flutningamörkuðum og magn lækkaði lítillega á meðan framlegð hélst sterk.

Skipaflutningar verða hluti af evrópska viðskiptakerfinu með losunarheimildir (e. EU Emissions Trading System, EU ETS) frá og með 2024. Tilgangur og markmið reglugerðarinnar eru mikilvægur þáttur í því að draga úr losun frá geiranum. Við erum búin að undirbúa okkur fyrir þessa innleiðingu í nokkurn tíma, með það fyrir augum að draga úr losun og tempra þau óhjákvæmilegu áhrif sem reglugerðin mun hafa á flutningskostnað. Á síðustu árum höfum við gripið til ýmissa aðgerða til þess að draga úr losun frá okkar rekstri, svo sem að fjárfesta í nýrri og stærri skipum sem eyða minna eldsneyti en eldri skip, rafvæðingu hafnarkrana, fjárfestingu í landtengingu gámaskipa í Sundahöfn, og aðlaganir í siglingarkerfinu okkar í því skyni að auka skilvirkni í leiðakerfinu og rekstrinum, svo eitthvað sé nefnt. Þær mótvægisaðgerðir sem við erum nú þegar að vinna að innifela m.a. frekari aðlaganir í siglingakerfinu með það að markmiði að draga úr sigldum mílum og eldsneytisnotkun, að draga enn frekar úr siglingarhraða eins og kostur er, að auka skilvirkni í hafnarstarfsemi til þess að stytta viðlegutíma skipa og að halda áfram að skoða möguleika okkar þegar kemur að öðrum orkugjöfum en hefðbundnu jarðefnaeldsneyti. Ef horft er enn lengra fram á veginn, höfum við sett okkur háleit markmið í því að draga enn frekar úr losun með því að fjárfesta í nýjum og enn hagkvæmari skipum, sem vonandi munu ganga fyrir grænum orkugjöfum.

Við trúum því staðfastlega að ánægja starfsfólks sé grundvöllur árangurs, sem er ástæða þess að við leggjum ríka áherslu á vellíðan starfsfólks og virka starfsþróun, bæði í stefnumörkun sem og daglegum rekstri. Við látum árlega framkvæma starfsánægjukannanir til að mæla helgun starfsfólks, sem er einn af okkar lykilárangursmælikvörðum. Könnun þessa árs var framkvæmd í maí og við vorum ánægð að sjá niðurstöðurnar sem gefa til kynna að ánægja meðal starfsfólks okkar sé að aukast ár frá ári og einnig að erum við að skora hærra en meðaltal alþjóðlegra samanburðarfélaga í svipuðum geirum.

Horfur fyrir komandi fjórðunga eru almennt stöðugar, þar sem dregið hefur mikið úr þeirri óvissu sem hefur litað síðustu misseri, samhliða því sem alþjóðlegir flutningamarkaðir hafa náð jafnvægi og sú mikla spenna sem setti mark sitt á alþjóðleg stjórnmál og efnahagsmál í kjölfar stríðsins í Úkraínu hefur minnkað. Heimamarkaðurinn okkar í Norður-Atlantshafi er nokkuð sterkur, við sjáum fram á met ferðamannaár á Íslandi, horfur fyrir laxeldið bæði á Íslandi og í Færeyjum lofa góðu, og við gerum ráð fyrir að frystiflutningskerfið okkar í Noregi taki við sér í haust eftir rólega sumarmánuði eins og hefðbundið er. Trans-Atlantic flutningsverð hafa haldið áfram að lækka á þriðja ársfjórðungi sem mun óhjákvæmilega hafa áhrif á tekjur okkar af þeirri flutningsleið, en á sama tíma eru magnhorfur nokkuð góðar, þökk sé einstakri stöðu okkar sem eina alþjóðlega skipafélagið sem býður upp á beina þjónustu frá Evrópu til Nýfundnalands og Portland, Maine. Horfur í alþjóðlegri flutningsmiðlun eru stöðugar, á markaði sem virðist hafa fundið jafnvægi.”

KYNNINGARFUNDUR 16. ÁGÚST 2023

Stjórn Eimskipafélags Íslands hf. samþykkti árshlutareikning samstæðu Eimskips fyrir annan ársfjórðung á stjórnarfundi þann 15. ágúst 2023. Kynningarfundur fyrir fjárfesta og markaðsaðila verður haldinn miðvikudaginn 16. ágúst kl. 8:30 í höfuðstöðvum félagsins Sundabakka 2, 2. hæð. Fundurinn verður einnig rafrænn og verður honum streymt beint á fjárfestasíðu Eimskips www.eimskip.com/investors. Þar munu Vilhelm Már Þorsteinsson forstjóri og María Björk Einarsdóttir fjármálastjóri kynna uppgjör félagsins fyrir annan ársfjórðung. Uppgjörsgögn og upptöku af fundinum verður einnig hægt að nálgast á fjárfestasíðunni.

FREKARI UPPLÝSINGAR

María Björk Einarsdóttir, fjármálastjóri , sími: 774 0604, netfang: investors@eimskip.com.

Guðbjörg Birna Björnsdóttir, forstöðumaður fjárstýringar og fjárfestatengsla, sími: 844 4752, netfang: investors@eimskip.com

TIL ATHUGUNAR FYRIR FJÁRFESTA

Eimskip vekur athygli á því að staðhæfingar sem finna má í þessari afkomutilkynningu kunna að vera byggðar á mati og áætlunum stjórnenda félagsins en ekki á staðreyndum sem hægt er að sannreyna við birtingu tilkynningarinnar. Eðli málsins samkvæmt fela slíkar staðhæfingar í sér óvissu. Athygli fjárfesta er vakin á því að margir þættir geta haft þau áhrif að rekstrarumhverfi félagsins og afkoma verði með öðrum hætti en forsendur gera ráð fyrir í tilkynningunni. Þessi tilkynning verður ekki endurskoðuð eftir birtingu hvað þetta varðar. Staðhæfingar sem finna má í þessari afkomutilkynningu gilda eingöngu á því tímamarki þegar tilkynningin er fyrst birt og takmarkast gildi þeirra við sem segir í fyrirvara þessum.

Viðhengi



Eimskip - Condensed Consolidated Interim Financial Statements 1H2023.pdf
Eimskip - Q2 2023 Financial Results - Investor Presentation.pdf