Icelandic
Birt: 2022-05-05 17:54:28 CEST
Sjóvá-Almennar tryggingar hf.
Árshlutareikningur (Q1 og Q3)

Sjóvá - Uppgjör 1. ársfjórðungs 2022

Helstu niðurstöður úr árshlutauppgjöri Sjóvá-Almennra trygginga hf. vegna fyrsta ársfjórðungs 2022:

Fyrsti ársfjórðungur 2022 og uppfærðar horfur

  • Hagnaður af vátryggingastarfsemi fyrir skatta 461 m.kr. (1F 2021: 555 m.kr.)
  • Hagnaður af fjárfestingarstarfsemi fyrir skatta 804 m.kr. (1F 2021: 1.652 m.kr.)
  • Hagnaður tímabilsins 1.054 m.kr. (1F 2021: 2.064 m.kr.)
  • Ávöxtun fjárfestingareigna í stýringu 1,6% (1F 2021: 3,8%)
  • Samsett hlutfall 95,6% (1F 2021: 91,4%)
  • Horfur fyrir árið 2022 gera ráð fyrir að afkoma af vátryggingastarfsemi fyrir skatta verði um 1.400-1.800 m.kr. (var 1.800-2.200 m.kr.) og samsett hlutfall um 95-97% (var 93-95%)
  • Horfur til næstu 12 mánaða (2F 2022 – 1F 2023) gera ráð fyrir að afkoma af vátryggingastarfsemi fyrir skatta verði um 1.400-1.800 m.kr. og samsett hlutfall um 95-97%.

Hermann Björnsson, forstjóri:
Rekstur Sjóvár gekk með ágætum á fyrsta fjórðungi ársins þar sem afkoma af rekstri nam 1.054 m.kr. og er niðurstaðan góð í ljósi viðburðarríks tímabils bæði í fjárfestinga- og vátryggingastarfseminni

Þróun iðgjalda var mjög jákvæð á fjórðungnum eins og verið hefur undanfarin ár en við sjáum iðgjaldavöxt í öllum tryggingaflokkum, bæði hjá fyrirtækjum og einstaklingum. Iðgjöld tímabilsins aukast um 13,7% samanborið við sama tímabil í fyrra.

Tjónahlutfall á fyrsta ársfjórðungi hækkar frá sama tímabili í fyrra en aldrei hafa eins margar tjónstilkynningar borist í einum mánuði eins og í mars á þessu ári. Skýrist það einna helst af því að fjórðungurinn var óvenju þungur veðurfarslega og sjáum við tjón aukast á milli ára þrátt fyrir að umferðartölur sýni að færri voru á ferðinni. Það er augljóst að vegakerfið kom illa undan þessum vetri og langt síðan ástand vega hefur verið jafn slæmt. Aukin umsvif í atvinnulífinu stuðla einnig að hækkandi tjónshlutfalli á milli ára.

Samsett hlutfall var 95,6% í fjórðungnum og afkoma af vátryggingastarfsemi fyrir skatta 461 m.kr. og dregst saman á milli ára. Niðurstaðan er lítillega undir væntingum okkar fyrir afkomu fjórðungsins en góð miðað við aðstæður.

Sem fyrr leggjum við höfðáherslu á að veita viðskiptavinum okkar framúrskarandi þjónustu. Í vetur reyndi sannarlega á það þegar óvenju margir viðskiptavinir leituðu til okkar vegna tjóna. Við sjáum mikið virði í samskiptum við viðskiptavini og nýtum þau til þess að aðlaga vöru- og þjónustuframboð þannig að það endurspegli þarfir þeirra hverju sinni.

Í annað sinn á tveimur árum munum við endurgreiða viðskiptavinum okkar á einstaklingsmarkaði iðgjöld lögboðinna ökutækjatrygginga í maí. Byggir sú ákvörðun á afar góðri rekstrarafkomu félagsins undanfarin ár og viljum við að viðskiptavinir okkar njóti góðs af því. Eins og síðast hefur aðgerðin mælst gríðarlega vel fyrir hjá viðskiptavinum okkar sem og utan þess hóps. Með þessum tveimur endurgreiðslum hefur um 1.300 m.kr. verið varið til okkar viðskiptavina til viðbótar við árlega endurgreiðslu til tjónlausra Stofnfélaga. Við erum sannfærð um að þessar ráðstafanir ásamt háu þjónustustigi eiga þátt í okkar jákvæða iðgjaldavexti og mikilli tryggð viðskiptavina.

Fjárfestingatekjur af eignum í stýringu námu 825 m.kr. eða sem nemur 1,6% ávöxtun. Á fjórðungnum voru miklar sveiflur á fjármálamörkuðum í kjölfar innrásarinnar í Úkraínu. Afkoma okkar af óskráðum hlutabréfum var neikvæð um 307 m.kr. sem skýrist að mestu leyti af gengislækkun hlutabréfa í Controlant líkt og tilkynnt var um 6. apríl sl.

Uppfærðar horfur fyrir árið 2022 gera ráð fyrir að afkoma af vátryggingastarfsemi fyrir skatta verði um 1.400-1.800 m.kr og samsett hlutfall um 95-97%. Horfur til næstu 12 mánaða (2F 2022 – 1F 2023) gera ráð fyrir að

afkoma af vátryggingastarfsemi fyrir skatta verði um 1.400-1.800 m.kr. og samsett hlutfall um 95-97%. Breytingu á horfum má einkum rekja til tjónaþróunar á fyrsta ársfjórðungi auk töluverðrar óvissu um verðlagsþróun sem getur haft neikvæð áhrif á afkomu félagsins á tímabilinu. Vel er fylgst með efnahagslegri þróun í okkar nærumhverfi og horfur uppfærðar eftir þörfum.

Kynningarfundur 5. maí kl. 16:15

Markaðsaðilum og fjárfestum er boðið á kynningarfund í fundarsal félagsins í Kringlunni 5, 6. hæð þann 5. maí kl. 16:15. Þar munu Hermann Björnsson forstjóri, Sigríður Vala Halldórsdóttir framkvæmdastjóri fjármála og upplýsingatækni og Þórður Pálsson forstöðumaður fjárfestinga kynna uppgjörið og fara yfir afkomu félagsins. Kynningunni verður jafnframt streymt á slóðinni https://www.sjova.is/um-okkur/fjarfestar/afkomukynning-1f-2022/.

Vilji aðilar bera upp spurningar má senda þær á netfangið fjarfestar@sjova.is fyrir fundinn eða á meðan á fundi stendur og verður þeim svarað í lok kynningarinnar.

Uppgjörsefni verður aðgengilegt á vef Sjóvár www.sjova.is/fjarfestar frá þeim tíma er kynningin hefst og verður upptaka af fundinum aðgengileg á sömu síðu að fundi loknum.

Fjárhagsdagatal

2F 2022 – 14. júlí 2022
3F 2022 – 27. október 2022
4F 2022 – 9. febrúar 2023
Aðalfundur 2023 – 10. mars 2023

Nánari upplýsingar
Meðfylgjandi er fréttatilkynning, samandreginn árshlutareikningur og fjárfestakynning Sjóvá-Almennra trygginga hf. vegna fyrsta ársfjórðungs 2022.

Nánari upplýsingar veitir Andri Már Rúnarsson í síma 772-5590 eða fjarfestar@sjova.is.


ViðhengiArshlutareikningur Sjova 31.03.22.pdf
Frettatilkynning Sjova - 1F 2022.pdf
Sjova - Fjarfestakynning 1F 2022.pdf