English Icelandic
Birt: 2022-02-03 14:17:38 CET
Landsbankinn hf.
Reikningsskil

Landsbankinn hf.: Uppgjör Landsbankans fyrir árið 2021

  • Hagnaður Landsbankans á árinu 2021 nam 28,9 milljörðum króna eftir skatta.
  • Arðsemi eiginfjár á árinu 2021 var 10,8% eftir skatta. Markmið bankans er að arðsemi eiginfjár verði að lágmarki 10%.
  • Arðsemi eiginfjár á fjórða ársfjórðungi 2021 var 10,5% eftir skatta, samanborið við 15,5% arðsemi á sama ársfjórðungi árið 2020.
  • Hreinar þjónustutekjur jukust um 24% á milli ára, einkum vegna vaxandi umsvifa í eignastýringu og markaðsviðskiptum.
  • Markaðshlutdeild á einstaklingsmarkaði er 39,5% og hefur aldrei verið hærri. Aldrei hafa fleiri bæst í hóp ánægðra viðskiptavina bankans.
  • Um 2.500 fyrirtæki og einyrkjar komu í viðskipti við Landsbankann á árinu 2021, fleiri en nokkru sinni fyrr.
  • Samningum um eignastýringu fjölgaði um 25% á milli ára.
  • Hagkvæmni í rekstri hélt áfram að aukast. Kostnaðarhlutfall var 43,2% á árinu 2021 og hlutfall rekstrarkostnaðar af meðalstöðu heildareigna var 1,4%.
  • Eigið fé nam 282,6 milljörðum króna í árslok 2021 og eiginfjárhlutfall bankans var 26,6%.
  • Bankaráð mun leggja til við aðalfund að greiddur verði 14,4 milljarða króna arður til hluthafa vegna ársins 2021. Verði þessi tillaga samþykkt munu arðgreiðslur bankans á árunum 2013-2022 samtals nema um 160,6 milljörðum króna.
  • Bankaráð er jafnframt með til skoðunar að leggja til að greiddur verði út sérstakur arður á árinu 2022.
  • Árs- og sjálfbærniskýrsla Landsbankans og Pillar III áhættuskýrsla fyrir árið 2021 koma út samhliða birtingu ársuppgjörsins.

Hagnaður Landsbankans á árinu 2021 nam 28,9 milljörðum króna eftir skatta, samanborið við 10,5 milljarða króna á árinu 2020. Arðsemi eigin fjár var 10,8% á árinu 2021 eftir skatta, samanborið við 4,3% arðsemi árið áður.

Hreinar vaxtatekjur námu 39,0 milljörðum króna árið 2021 samanborið við 38,1 milljarð króna árið á undan. Vaxtamunur sem hlutfall af meðalstöðu eigna og skulda nam 2,3% á árinu 2021 en var 2,5% árið áður. Hreinar þjónustutekjur námu 9,5 milljörðum króna árið 2021 samanborið við 7,6 milljarða króna á árinu 2020. Aðrar rekstrartekjur voru 13,9 milljarðar króna samanborið við neikvæðar rekstrartekjur upp á 7,5 milljarða króna á árinu 2020. Viðsnúningur varð í virðisbreytingu útlána milli ára og voru virðisbreytingar jákvæðar um 7,0 milljarða króna á árinu 2021 samanborið við neikvæðar virðisbreytingar upp á 12,0 milljarða króna árið 2020. Viðsnúninginn má rekja til þess að betri horfur eru í efnahagsmálum og áhrif kórónuveirufaraldursins á útlán bankans eru minni en áður var gert ráð fyrir.

Rekstrartekjur bankans á árinu 2021 námu 62,3 milljörðum króna samanborið við 38,3 milljarða króna árið áður.

Rekstrargjöld voru 25,9 milljarðar króna á árinu 2021 samanborið við 25,6 milljarða króna á árinu 2020. Þar af voru laun og launatengd gjöld 14,8 milljarðar króna, sem er sama fjárhæð og árið 2020. Annar rekstrarkostnaður var 9,1 milljarður króna á árinu 2021, óbreyttur frá fyrra ári.

Hagnaður fyrir skatta á árinu 2021 var 36,5 milljarðar króna samanborið við 12,6 milljarða króna árið 2020. Reiknaðir skattar, þar með talið skattur á heildarskuldir fjármálafyrirtækja og sérstakur fjársýsluskattur á laun, voru 10,3 milljarðar króna árið 2021 samanborið við 4,6 milljarða króna árið 2020.

Kostnaður sem hlutfall af tekjum (K/T) á árinu 2021 var 43,2%, samanborið við 47,4% á árinu 2020.

Heildareignir jukust um 165,6 milljarða króna á milli ára og námu í árslok 2021 alls 1.730 milljörðum króna. Útlán jukust um 9% milli ára, eða um 114 milljarða króna. Útlánaaukningu ársins má rekja til aukningar á íbúðalánum til einstaklinga. Í árslok 2021 voru innlán frá viðskiptavinum 900 milljarðar króna, samanborið við 793 milljarða króna í árslok 2020 og höfðu því aukist um 107 milljarða króna.

Eigið fé í árslok 2021 var 282,6 milljarðar króna samanborið við 258,3 milljarða króna í árslok 2020. Á árinu 2021 greiddi Landsbankinn 4,5 milljarða króna í arð til hluthafa. Eiginfjárhlutfall í árslok 2021 var 26,6%, samanborið við 25,1% í árslok 2020. Fjármálaeftirlit Seðlabanka Íslands gerir 18,9% heildarkröfu um eiginfjárgrunn Landsbankans.

Bankaráð Landsbankans mun leggja til við aðalfund þann 23. mars 2022 að greiddur verði arður til hluthafa vegna ársins 2021 sem nemur 0,61 krónu á hlut, eða samtals 14,4 milljörðum króna. Arðgreiðslan samsvarar 50% af hagnaði samstæðunnar á árinu 2021. Verði tillagan samþykkt munu arðgreiðslur bankans á árunum 2013-2022 samtals nema um 160,6 milljörðum króna. Þá er bankaráð jafnframt með til skoðunar að leggja til að greiddur verði út sérstakur arður á árinu 2022.

Lilja Björk Einarsdóttir, bankastjóri Landsbankans, segir:

„Eins og uppgjörið ber með sér gekk rekstur Landsbankans vel á árinu 2021. Arðsemi bankans var 10,8% sem er í samræmi við okkar markmið og telst vera gríðarlega góður árangur, sérstaklega ef litið er til þess að bankinn býr yfir miklu eigin fé, eða um 283 milljörðum króna, og er eiginfjárhlutfallið töluvert umfram kröfur eftirlitsaðila. Tekjur hafa aukist en umbætur í rekstri hafa leitt til aukinnar skilvirkni og kostnaður hefur haldist stöðugur mörg undanfarin ár. Á árinu jukust þjónustutekjur töluvert umfram markmið, en sá árangur skýrist einna helst af auknum verðbréfaviðskiptum og góðum árangri í eignastýringu. Við komum að nokkrum árangursríkum hluta- og skuldafjárútboðum á árinu og Fyrirtækjaráðgjöf Landsbankans sá m.a. um frumútboð Síldarvinnslunnar, sem heppnaðist mjög vel.

Þótt Covid-19 hafi sett mikinn svip á árið 2021 náði starfsfólk bankans verulega góðum árangri. Viðskiptavinum á öllum viðskiptasviðum bankans fjölgaði mikið og við kynntum fjölmargar nýjungar og betri þjónustu fyrir einstaklinga, fyrirtæki, fagfjárfesta og viðskiptavini í eignastýringu. Þriðja árið í röð var Landsbankinn efstur banka í Íslensku ánægjuvoginni. Við hlökkum til að kynna enn frekari nýjungar og góða þjónustu fyrir þeim fjölmörgu nýju viðskiptavinum sem bættust í hópinn á árinu, en þeir voru fleiri en nokkru sinni fyrr.

Góður rekstur bankans skilar sér til viðskiptavina og í þrjú ár höfum við til að mynda getað boðið lægstu íbúðalánavexti á óverðtryggðum íbúðalánum. Þetta hefur leitt til þess að fleiri velja að taka íbúðalán hjá bankanum og á árinu 2021 tóku að meðaltali rúmlega 700 fjölskyldur og einstaklingar lán hjá bankanum í hverjum mánuði. Fyrirtæki hafa frekar haldið að sér höndum sökum óvissu, og því minna óskað eftir lánum, þó með þeirri undantekningu að ágætur gangur hefur verið í útlánum til verktaka, en bankinn tók þátt í að fjármagna byggingu um 3.800 íbúða á árinu 2021. Þá er staða bankans áfram sterk í sjávarútvegi og útlán til sjávarútvegsfyrirtækja mynda stærsta hluta lánasafns bankans, fyrir utan lán til einstaklinga. Horfur fyrir næsta ár eru enn óljósar hvað varðar útlán til fyrirtækja, því þó staða þeirra sé almennt góð og bankinn tilbúinn að fjármagna verkefni, þá eykur hætta á verðbólgu og verðhækkunum óvissuna. Landsbankinn hefur unnið ötullega að sjálfbærni í starfsemi bankans undanfarin ár og óhætt er að segja að þessi vinna hafi borið ríkulegan ávöxt á árinu 2021. Nýr sjálfbær fjármálarammi hefur leitt til aukinnar fjölbreytni í fjármögnun en á árinu 2021 gáfum við út tvo græna skuldabréfaflokka, samtals að fjárhæð 600 milljónir evra. Sjálfbærnivinna bankans hefur líka myndað tækifæri fyrir aukna þjónustu til viðskiptavina, til dæmis í skuldabréfaútgáfu og við lánveitingar. Samkvæmt mati alþjóðlega matsfyrirtækisins Sustainalytics er talin hverfandi áhætta á að bankinn verði fyrir áföllum vegna UFS-þátta, sem eru mikilvæg skilaboð til fjárfesta, hluthafa og viðskiptavina bankans.

Góð afkoma bankans veldur því að það er töluvert svigrúm til að greiða út arð til hluthafa. Þá er eigið fé bankans talsvert umfram kröfur eftirlitsaðila og umfram það sem við teljum hæfilegt. Við sjáum tækifæri til að bæta fjármagnsskipan bankans með því að lækka eigið fé með arðgreiðslum og stjórn bankans mun leggja fram tillögu til aðalfundar um greiðslu arðs sem nemur um helmingi hagnaðar ársins 2021.

Enn er gjarnan rætt um Landsbankann sem banka allra landsmanna. Um er að ræða gamalt slagorð en við erum stolt af því að vera vel tengd við allt landið. Við viljum taka stöðugum framförum, vera til staðar um allt land, einfalda líf viðskiptavina og veita framúrskarandi fjármálaþjónustu fyrir fjölbreytta atvinnustarfsemi og fyrirtæki af öllum stærðum og gerðum. Við viljum að fólk um land allt velji Landsbankann, fái þannig aðgang að bankaþjónustu allan sólarhringinn og geti leitað til þaulreyndra sérfræðinga og ráðgjafa, hvort sem er á staðnum eða á fjarfundum. Síðast en ekki síst viljum við þróast í takt við samfélagið. Það er Landsbanki nýrra tíma.“

Símafundur vegna uppgjörs

Föstudaginn 4 . febrúar 2022 kl. 10.00 mun bankinn bjóða upp á símafund á ensku þar sem farið verður yfir uppgjör bankans vegna ársins 2021. Vinsamlegast skráið ykkur á símafundinn með því að senda tölvupóst á netfangið fjarfestatengsl@landsbankinn.is.

Fjárhagsdagatal Landsbankans

Aðalfundur 23. mars 2022

Uppgjör 1F 2022 5. maí 2022

Uppgjör 2F 2022 21. júlí 2022

Uppgjör 3F 2022 27. október 2022

Ársuppgjör 2022 2. febrúar 2023

 

Nánari upplýsingar veita:                

Rúnar Pálmason, upplýsingafulltrúi, samskipti@landsbankinn.is

Hanna Kristín Thoroddsen, fjárfestatengsl, fjárfestatengsl@landsbanki.is

Viðhengi



Arsreikningur_samstu_31.12.2021.pdf
Frettatilkynning_Landsbankinn_31.12.2022.pdf
Landsbankinn-Pillar-III-Risk-Report-2021.pdf
Uppgjorskynning_Landsbankinn_31.12.2021.pdf