English Icelandic
Birt: 2022-01-19 23:20:46 CET
Kvika banki hf.
Innherjaupplýsingar

Kvika banki hf: Afkoma umfram væntingar

Drög að uppgjöri samstæðu Kviku banka hf. fyrir fjórða ársfjórðung 2021 liggja nú fyrir en samkvæmt þeim er afkoma fjórðungsins áætluð á bilinu 2,6 – 2,7 ma.kr fyrir skatta (10,45 – 10,55 ma.kr. fyrir árið 2021), sem samsvarar 25,3% - 26,3% árlegri arðsemi á vegið efnislegt eigið fé (34,5% – 34,9% fyrir árið 2021). Uppgjörið er umfram áætlanir samstæðunnar fyrir tímabilið en afkomuspá ársins var seinast uppfærð þann 10. nóvember síðastliðinn og hljóðaði upp á 9,8 – 10,3 ma.kr. í hagnað fyrir skatta.

Rekstur samstæðunnar gekk vel á fjórðungnum og var grunnrekstur sterkur. Hreinar vaxtatekjur og tryggingarekstur voru talsvert umfram áætlun, auk þess sem að hreinar fjárfestingatekjur voru góðar. Útlit er fyrir að samsett hlutfall TM verði um 89% á árinu 2021. Hrein virðisrýrnun útlána var einnig undir áætlun. Rekstarkostnaður fjórðungsins er nokkuð litaður af óreglulegum – og einskiptis liðum, svo sem vegna fyrirhugaðra flutninga í Katrínartún og fyrninga óefnislegra eigna í kjölfar kaupverðsúthlutunar.

Áhrif vegna mats á aðgreinanlegum óefnislegum eignum í tengslum við kaupverðsúthlutun

Samhliða vinnu við 2021 ársreikning hefur verið unnið í kaupverðsúthlutun vegna samruna sem áttu sér stað á árinu 2021. Líkt og reikningsskilareglur kveða á um, þá fer fram mat á aðgreinanlegum óefnislegum eignum við gerð kaupverðsúthlutunar. Niðurstaða matsins er að um 5,7 ma.kr. eru færðar sem aðgreinanlegar óefnislegar eignir sem ber að fyrna yfir metinn nýtingartíma þeirra, auk þess sem færð er tekjuskattskuldbinding upp á 515 m.kr. Metinn nýtingartími er nokkuð mismunandi eftir eignum og er á bilinu fimm til tuttugu ár. Ennfremur var framkvæmt gangvirðismat á yfirtekinni lántöku og hún hækkuð sem nemur 234 m.kr. Til viðbótar var yfirtekið yfirfæranlegt tap endurmetið og skatteign að upphæð 971 m.kr. var færð inn á efnahag. Niðurstaða kaupverðsútdeilingarinnar er því að viðskiptavild í samstæðunni lækkar um sem nemur 5,9 ma.kr.

Áhrif þessa mun gæta á komandi árum í rekstrarreikningi samstæðunnar. Á árinu 2021 er færð hrein gjaldfærsla fyrir skatt sem nemur 135 m.kr., þar af 319 m.kr. sem rekstrarkostnaður. Í afkomuspá ársins var ekki gert ráð fyrir þessum gjaldfærslum en í fyrirliggjandi drögum að uppgjöri 2021 er gert ráð fyrir þeim.

Á árinu 2022 er áætlað að áhrifin verði hrein gjaldfærsla sem nemur 376 m.kr., 397 m.kr. á árinu 2023 og 411 m.kr. á árunum 2024 og 2025. Eftir það er áætlað að árleg gjaldfærsla fari lækkandi, samhliða því að metinn nýtingartími hinna óefnislegu eigna rennur sitt skeið á enda.

Uppgjörið er enn í vinnslu og getur því tekið breytingum fram að birtingardegi.