Helstu atriði fyrsta ársfjórðungs 2024
- Rekstur félagsins fór rólega af stað á árinu eins og upplýsingagjöf á síðasta fjórðungi gaf til kynna, en gert er ráð fyrir bata á seinni hluta ársins samhliða auknum pöntunum.
- Staða pantanabókar er lág og nam aðeins 33% af tekjum síðustu 12 mánaða. Þörf er á frekari vexti pantanabókar til að styðja við tekjuvöxt og bætta rekstrarafkomu.
- Þjónustutekjur héldu áfram að styrkjast og voru 205,7 milljónir evra á fjórðungnum, eða sem nemur yfir 800 milljónum evra samtals síðustu 12 mánuði.
- EBIT framlegð nam 7,9% á fjórðungnum. Alifuglaiðnaður skilaði áfram góðri afkomu en EBIT framlegð í fisk- og kjötiðnuðunum var neikvæð og samdráttur var í tekjum á sviði plöntupróteina og fóðri fyrir fiskeldi og gæludýr (e. Plant, Pet and Feed).
- Áframhaldandi áhersla er á lækkun kostnaðar en þar má sem dæmi nefna fækkun stöðugilda um 9% á síðustu tólf mánuðum og um 2% á fyrsta ársfjórðungi.
- Skuldahlutfall hækkaði í 3,75x, þar vógu þyngst lægri pantanir og lægri EBITDA framlegð, en lausafjárstaða er góð og svigrúm í lánaskilmálum er ríflegt út árið.
Lykiltölur
- Pantanir námu 392,8 milljónum evra (4F23: 466,4m, 1F23: 362,6m).
- Pantanabókin stóð í 560,3 milljónum evra (4F23: 580,1m, 1F23: 590,4m).
- Tekjur voru 412,6 milljónir evra (4F23: 448,0m, 1F23: 447,4m).
- Hlutfall pantana á móti tekjum (e. Book-to-bill) var 0,95 og hlutfall pantanabókar samsvarar 33,2% af tekjum síðustu tólf mánaða.
- EBITDA[1] nam 48,1 milljónum evra (4F23: 58,9m, 1F23: 56,5m) sem var 11,7% af tekjum ársins (4F23: 13,1%, 1F23: 12,6%).
- EBIT[1] nam 32,8 milljónum evra (4F23: 42,8m, 1F23: 40,2m) sem var 7,9% af tekjum ársins (4F23: 9,6%, 1F23: 9,0%).
- Tap nam 3,2 milljónum evra (Hagnaður 4F23: 8,7m, 1F23: 9,1m).
- Tap á hlut var 0,42 evru sent (Hagnaður á hlut 4F23: 1,15 evru sent, 1F23: 1,21 evru sent).
- Handbært fé frá rekstri fyrir fjármagnsliði og skatta var 26,2 milljónir evra (4F23: 102,0m, 1F23: 34,3m). Frjálst sjóðstreymi var 11,2 milljónir evra (4F23: 83,4m, 1F23: -0,3m).
- Skuldahlutfall[2] (nettó skuldir/EBITDA) var 3,75x í lok desember (4F23: 3,45x, 1F23: 3,34x).
Árni Sigurðsson, forstjóri Marel:
„Eins og við væntum fór árið rólega af stað, líkt og vísað var til í ársuppgjöri félagsins í febrúar. Tekjur námu 413 milljónum evra og EBIT framlegð var 7,9%. Áfram er góður vöxtur í þjónustutekjum sem nema yfir 800 milljónir evra á síðustu 12 mánuðum. Á sama tíma eru tekjur frá verkefnum merkjanlega lægri og helst það í hendur við lægri pantanir og samdrátt pantanabókar síðustu misseri.
Við höfum unnið markvisst að lækkun kostnaðar og gripið til hagræðingaraðgerða og unnið að lækkun fjárbindingar í hreinum veltufjármunum. Það er skýrt að þörf er á frekari uppbyggingu pantanabókar til að bæta framlegð og rekstur.
Til skemmri tíma litið ríkir áframhaldandi óvissa, sem endurspeglast í lægri mótteknum pöntunum á fjórðungnum en búist var við. Hins vegar sjáum við skýr batamerki í rekstrarumhverfi viðskiptavina okkar og jákvæðari horfum byggt á lækkandi fóðurverði og hækkandi vöruverði. Þetta rímar vel við þá endurgjöf frá viðskiptavinum félagsins sem við höfum fengið á vörusýningum síðustu mánuði og við erum bjartsýn á þróun markaðarins fyrir seinni helming ársins.
Í byrjun apríl var stigið mikilvægt skref í átt að mögulegri sameiningu við JBT með undirritun samkomulags um helstu skilmála í tengslum við fyrirhugað yfirtökutilboð JBT. Möguleg sameining félaganna felur í sér spennandi tækifæri til að hraða vegferð okkar í átt að sjálfbærari vinnslu matvæla. Við munum áfram vinna náið með JBT í aðdraganda fyrirhugaðs yfirtökutilboðs sem JBT áætlar að leggja fram síðar í mánuðinum.
Ég vil þakka hinu hæfileikaríka starfsfólki Marel um allan heim fyrir sitt mikilvæga starf í síbreytilegu rekstrarumhverfi. Saman vinnum við ótrauð áfram að markmiðum okkar og þeirri framtíðarsýn að umbylta matvælavinnslu á heimsvísu.“
Horfur
Markaðsaðstæður eru áfram krefjandi sem veldur aukinni óvissu. Reikna má með bata í ytra umhverfi á komandi ársfjórðungum, en greina má jákvæð merki hjá viðskiptavinum og á þeim mörkuðum sem Marel starfar á.
Skortur á vinnuafli og áframhaldandi launaverðbólga samhliða aukinni áherslu á sjálfvirkni, róbótatækni og stafrænar lausnir sem tryggja örugg matvæli sem unnin eru á sjálfbæran hátt, munu halda áfram að styðja við vaxtarhorfur félagsins til lengri tíma litið.
Krefjandi markaðsaðstæður höfðu neikvæð áhrif á stærð pantanabókar árið 2023 og áfram á fyrsta ársfjórðungi þessa árs, en gert er ráð fyrir bata í mótteknum pöntunum og hækkandi tekjum á seinni helmingi ársins.
Til að ná fram vexti í tekjum og bættri afkomu þarf að byggja upp pantanabók félagsins.
JBT hyggst leggja fram yfirtökutilboð í lok maí 2024
Líkt og greint var frá þann 5. apríl síðastliðinn, hefur Marel undirritað samkomulag við John Bean Technologies Corporation (JBT) um helstu skilmála í tengslum við fyrirhugað yfirtökutilboð JBT í allt útistandandi hlutafé í Marel.
Um miðjan apríl síðastliðinn lagði JBT fram tilboðsyfirlit og skráningarlýsingu til yfirferðar og samþykktar Fjármálaeftirlits Seðlabanka Íslands. Í maí hyggst JBT einnig skila inn skráningaryfirlýsingu samkvæmt eyðublaði S-4 til Verðbréfaeftirlits Bandaríkjanna (U.S. Securities and Exchange Commission). Að fengnu samþykki Fjármálaeftirlits Seðlabanka Íslands hyggst JBT leggja fram valfrjálst yfirtökutilboð.
Fyrirhugað verð er 3,60 evrur á hlut. Með tilliti til áhrifa af samsetningu endurgjalds 65% í formi afhentra bréfa í JBT og um 35% í formi reiðufjár, myndi hlutfallsleg skipting eftir viðskipti leiða til þess að hluthafar Marel myndu eignast um 38% hlutafjár sameinaðs félags.
Í samkomulaginu er kveðið á um skuldbindingu sameinaðs félags til að varðveita arfleifð Marel og starfsemi á Íslandi í samræmi við fyrri tilkynningu frá 19. Janúar 2024.
Verði tilboðið lagt fram og samþykkt mun sameinað félag heita JBT Marel Corporation og mun félagið starfrækja evrópskar höfuðstöðvar og tækniþróunarsetur í Garðabæ á Íslandi. Sameinað félag verður áfram skráð í kauphöllinni í New York (e. New York Stock Exchange, NYSE) en til viðbótar verður óskað eftir tvískráningu á Nasdaq á Íslandi sem verður virk við frágang viðskiptanna.
Viðskiptin eru gerð með fyrirvara um að hefðbundin skilyrði verði uppfyllt, þar með talið samþykki frá viðeigandi eftirlitsaðilum, samþykki hluthafa Marel og samþykki hluthafa JBT, og gert er ráð fyrir að viðskiptin verði frágengin fyrir árslok 2024.
Afkomufundur með markaðsaðilum – beint streymi
Miðvikudaginn 8. maí 2024 kl. 8:30 verður haldinn afkomufundur í beinu streymi fyrir fjárfesta og markaðsaðila. Þar munu Árni Sigurðsson forstjóri og Sebastiaan Boelen fjármálastjóri kynna afkomu félagsins og helstu atriði úr rekstri á fyrsta ársfjórðungi.
Athugið að fundurinn verður eingöngu rafrænn. Fundinum verður streymt beint á Zoom og upptaka af fundinum verður aðgengileg á marel.com/ir eftir fundinn.
Skráning fer fram hér.
Fjárhagsdagatal
- 2F 2024 – 24. júlí 2024
- 3F 2024 – 30. október 2024
- 4F 2024 – 12. febrúar 2025
- Aðalfundur – 26. mars 2025
[1] Rekstrarniðurstaða og EBITDA aðlöguð fyrir afskrift á óefnislegum eignum tengdum yfirtökum (PPA), kostnaði tengdum yfirtökum og einskiptiskostnaði vegna endurskipulagningar. Á fjórða ársfjórðungi 2023 og fyrsta ársfjórðungi 2024 er rekstrarniðurstaða jafnframt leiðrétt fyrir kostnaði tengdum endurskipulagningu á vöruframboði félagsins.
[2] Nettó skuldir (án leiguskuldbindinga) / Pro forma leiðrétt EBITDA síðustu 12 mánaða (að yfirteknum félögum meðtöldum) án óreglulegra liða samkvæmt lánasamningum Marel.