English Icelandic
Birt: 2021-08-23 16:43:44 CEST
Orkuveita Reykjavíkur
Reikningsskil

Góð afkoma OR á fyrri hluta árs

Niðurstaða árshlutareiknings Orkuveitu Reykjavíkur fyrir fyrri helming ársins 2021 er mjög góð. Rekstrarkostnaður miðað við sama tímabil árið 2020 hefur lækkað um rúm 7% og auknar tekjur, meðal annars vegna hækkaðs álverðs, skýra góða afkomu. Bjarni Bjarnason, forstjóri OR, segir sterka niðurstöðu nú ráðast annars vegar af traustum rekstri og hins vegar af reiknuðum fjármagnsliðum en heildarafkoma reksturs OR á tímabilinu var jákvæð um 8,8 milljarða króna.

Árshlutareikningur OR samstæðunnar fyrir fyrsta sex mánuði ársins 2021 var samþykktur af stjórn OR í dag. Auk móðurfélagsins eru innan samstæðunnar Veitur, Orka náttúrunnar, Gagnaveita Reykjavíkur og Carbfix.


Lægri rekstrarkostnaður
Sé litið til reksturs OR hefur launakostnaður lækkað lítillega frá fyrra ári og annar rekstrarkostnaður lækkaði um meira en fjórðung milli ára. Heildarlækkun rekstrarkostnaðar frá fyrstu sex mánuðum ársins 2020 til jafnlengdar 2021 nam 733 milljónum króna eða 7,4%. Tekjur allra starfsþátta jukust og rekstrarhagnaður (EBIT) nam 10,2 milljörðum króna en var 8,1 milljarður króna fyrstu sex mánuðina 2020.


Meira en 11 milljarða króna sveifla vegna álverðs

Í upphafi kórónuveirufaraldursins lækkaði álverð ört en hluti raforkusölu OR í langtímasamningum er tengdur álverði. Lækkað mat á verðmæti þessara samninga kom niður á reiknaðri afkomu á fyrri helmingi ársins 2020. Á yfirstandandi ári hefur álverð hinsvegar hækkað talsvert. Fyrstu sex mánuði ársins 2020 var verðmæti þessara langtímasamninga tengdra álverði metið hafa lækkað um 5,7 milljarða en í rekstrarreikningi yfirstandandi árs er það talið hafa vaxið um 5,5 milljarða króna. Sveiflan milli ára í þessari reiknuðu stærð uppgjörsins nemur því 11,2 milljörðum króna.

Þegar litið er til sjóðstreymis – raunverulegra fjármuna í árshlutauppgjörinu en ekki reiknaðra stærða – sjást áhrif lægri rekstrarkostnaðar og aukinna tekna þjónustuþáttanna glöggt. Handbært fé frá rekstri OR og dótturfélaganna nam 14,6 milljörðum króna á fyrri hluta ársins en var 12,5 milljarðar á sama tímabili 2020. Lausafé samstæðunnar nemur nú 46 milljörðum króna og hefur staðan aldrei verið sterkari. Nú á mesta framkvæmdatíma ársins, þegar viðspyrnufjárfestingar Veitna vegna kórónuveirufaraldursins standa yfir auk hefðbundinna fjárfestinga og viðhalds, gengur þó ört á þennan sjóð.

Bjarni Bjarnason, forstjóri OR:

Fjárhagur Orkuveitu Reykjavíkur hefur sjaldan eða aldrei verið betri. Traust tök okkar á rekstrarkostnaði ráða þar miklu en líka efnahagsleg uppsveifla eftir mesta höggið vegna faraldursins. Án reiknaðra stærða í þessu uppgjöri væri reksturinn að skila liðlega fjögurra milljarða króna afgangi og mér finnst það viðunandi afkoma fyrirtækis af þessari stærð.

Við leitumst stöðugt við að bæta þjónustu við viðskiptavini. Uppfærsla allra orkumæla á heimilum og fyrirtækjum gefur fólki nýjar forsendur til að hafa yfirsýn yfir orkunotkunina og þeim heimilum sem við tengjum ljósleiðara fjölgar stöðugt.

Nýjustu gögn vísindafólks um loftslagsvána sýna okkur svo ekki verður um villst að verkefni okkar til að styðja við orkuskipti hér á landi eru áríðandi og nauðsynleg. Því er mikilvægt að þau gangi sem greiðast og að ekki verði bakslag. Við bindum líka miklar vonir við að Carbfix-tæknin sem hefur verið þróuð til bindingar koltvíoxíðs breiðist hratt um heimsbyggðina.

Lykiltölur fjármála OR

Lykiltölur fjármála OR-samstæðunnar eru birtar á vef Orkuveitu Reykjavíkur ásamt fjárhagslegum markmiðum sem unnið er eftir.

Slóðin er or.is/fjarmal/lykiltolur-fjarmala

Nánari upplýsingar:
Ingvar Stefánsson
Framkvæmdastjóri fjármála
516 6100

Viðhengi



OR Arshlutareikningur samstu H1 2021.pdf.pdf