English Icelandic
Birt: 2024-02-01 21:19:59 CET
Icelandair Group hf.
Reikningsskil

Icelandair: Birting ársreiknings 2023

  • Hagnaður ársins 1,5 milljarðar króna (11 milljónir USD) samanborið við tap að fjárhæð 800 milljónir króna (6 milljónir USD) árið 2022 
  • Sterk tekjumyndun á árinu og met einingatekjur 
  • Fjöldi farþega á árinu 4,3 milljónir, aukning um 17% 
  • Sætanýting ársins 81,5%, aukning um tæp 2 prósentustig 
  • Jarðhræringar, eldgos og verkföll flugumferðastjóra höfðu mikil áhrif á afkomu 4. ársfjórðungs  
  • EBIT á 4. ársfjórðungi neikvæð um 7 milljarða króna (50,3 milljónir USD) 
  • Framboðsaukning í fjórðungnum 13% á milli ára og fjölgun farþega 12% 
  • Lausafjárstaða sterk í lok árs eða 44 milljarðar króna (323 milljónir USD) 


Bogi Nils Bogason, forstjóri
„Það er mikilvægur áfangi að skila hagnaði eftir skatta fyrir árið í heild eftir krefjandi undanfarin ár. Tekjumyndun var mjög sterk á árinu og okkur gekk vel að bregðast við mikilli eftirspurn á öllum okkar mörkuðum, sér í lagi frá Norður Ameríku til Íslands. Þá var stundvísi yfir árið sú besta hjá félaginu í mörg ár og var Icelandair útnefnt eitt af 10 stundvísustu flugfélögum í Evrópu. 

Undirliggjandi rekstur félagsins var sterkur á árinu, sérstaklega ef tekið er tillit til áhrifa utanaðkomandi áskorana og neikvæðrar afkomu af fraktstarfsemi sem brugðist hefur verið við. Eftir einn besta þriðja ársfjórðung í sögu félagsins byrjaði fjórði ársfjórðungur vel. Hins vegar þegar jarðhræringarnar á Reykjanesi hófust á ný snemma í nóvember með tilheyrandi umfjöllun í erlendum fjölmiðlum, fór eftirspurn að veikjast og þar með tekjumyndun. Við þetta bættust áhrif verkfalla flugumferðarstjóra og svo eldgos í desember. Jafnframt hefur mikil framboðsaukning verið á lykilmörkuðum sem setur óhjákvæmilega pressu á einingatekjur. Afkoma fjórða ársfjórðungs var því undir væntingum og hafði áhrif á rekstrarniðurstöðu ársins.  

Það eru spennandi tímar framundan þrátt fyrir að ljóst sé að rekstur fyrri hluta ársins verði krefjandi vegna ástæðna sem nefndar eru hér að ofan og munu fylgja okkur inn í fyrsta ársfjórðung. Við erum vel í stakk búin til að takast á við þær áskoranir og grípa þau tækifæri sem framundan eru með því að nýta þann sveigjanleika sem við höfum til að laga okkur að aðstæðum á hverjum tíma. Flug og ferðaþjónusta skipta miklu máli fyrir íslenskt efnahagslíf og samfélag. Framlag Icelandair til þjóðarbúsins í formi skattspors félagsins var 55 milljarðar á árinu 2023 og ferðaþjónustan vegur þungt í útflutningstekjum þjóðarinnar. Það er því lykilatriði að tryggja samkeppnishæfni þessara greina til framtíðar. Mikilvægur hluti af því er að kjarasamningar verði farsællega leiddir til lykta og við náum í sameiningu tökum á verðbólgunni hér á landi. 

Útlitið er gott fyrir næsta sumar. Markaðurinn til Íslands er að taka við sér á ný eftir atburði síðustu vikna enda Ísland eftirsóttur áfangastaður. Þá erum við að sjá hærra hlutfall bókana yfir Atlantshafið en áður.  Flugáætlun okkar á árinu 2024 verður um 11% stærri en á árinu 2023 með 57 áfangastöðum, þar af þremur nýjum – Pittsburgh, Halifax og Vágar í Færeyjum.  

Ég hlakka til að takast á við verkefni þessa árs með framúrskarandi hópi starfsfólks og vil þakka þeim öllum fyrir ótrúlega seiglu og góðan árangur í krefjandi aðstæðum á síðasta ári. Þá vil ég þakka samstarfsaðilum okkar, hluthöfum og síðast en ekki síst viðskiptavinum okkar fyrir að velja Icelandair.“

Vefútsending 2. febrúar 2024

Kynning á uppgjöri 4. ársfjórðungs  og ársins 2023 verður í beinu streymi á https://icelandairgroup.com. Streymið hefst kl. 8:30 föstudaginn 2. febrúar 2024 þar sem Bogi Nils Bogason forstjóri Icelandair og Ívar S. Kristinsson framkvæmdastjóri fjármála munu fara yfir uppgjörið og svara spurningum. Fundurinn verður á ensku. Kynningin verður aðgengileg að fundi loknum á heimasíðu félagsins og undir fyrirtækjafréttum á heimasíðu Nasdaq Nordic: http://www.nasdaqomxnordic.com/news/companynews 

Viðhengi



549300UMI5MBLZSXGL15_20231231_viewer 2.html
549300UMI5MBLZSXGL15-2023-12-31-en 1.zip
Consolidated Financial Statement for year 2023 Icelandair Group hf..pdf
Frettatilkynning Q4 2023.pdf