Icelandic
Birt: 2021-08-31 18:48:57 CEST
Alma íbúðafélag hf.
Árshlutareikningur - 6 mán.

Alma íbúðarfélag hf. - birting árshlutareiknings 2021

Á fundi sínum þann 31. ágúst samþykkti stjórn Ölmu íbúðafélags hf. árshlutareikning samstæðunnar fyrir fyrri árshelming 2021

Rekstrartekjur samstæðunnar voru 2.143 m.kr. á tímabilinu. Þá var EBITDA (rekstrarhagnaður fyrir matsbreytingu, afskriftir og fjármagnsliði) 957 m.kr. fyrir tímabilið. Hagnaður varð af rekstri samstæðunnar á tímabilinu að fjárhæð 3.458 m.kr. Þeir liðir sem skýra að mestu þessa niðurstöðu er jákvæð matsbreyting fjárfestingareigna að fjárhæð 2.731 m.kr. og 1.404 m.kr. afkoma af eignarhlutum í öðrum félögum.

Heildareignir samstæðunnar námu 67.273 m.kr. 30. júní 2021, en þar af voru fjárfestingareignir 55.394 m.kr. og handbært fé var 594 m.kr. Vaxtaberandi skuldir námu 32.509 m.kr. og eigið fé samstæðunnar var 18.039 m.kr.

Breytt eignarhald, áherslubreytingar í stefnu, ný samstæðufélög og hlutafjáraukning

Þann 13. apríl gekk Langisjór ehf. endanlega frá kaupum á öllu hlutafé Ölmu íbúðafélags hf. af Almenna leigufélaginu eignarhaldssjóði og ný stjórn tók við í félaginu. 

Með nýjum eigendum urðu áherslubreytingar í stefnu félagsins þær helstar að leggja skildi meiri áherslu á að stækka eignasafnið á höfuðborgarsvæðinu, bæta takmörkuðu magni af atvinnuhúsnæði við eignasafnið og að félagið myndi koma í auknum mæli að fjárfestingum í þróunar- og byggingarverkefnum. Sem fyrstu skref í þessari vegferð keypti Alma fasteignafélögin Brimgarða ehf. og 14. júní ehf. af Langasjó ehf.

Til að styrkja við vöxt félagsins var eigið fé félagsins aukið um 2.000 m.kr. með hlutafjáraukningu sem lokið var við í apríl.

Ný samstæðufélög

Samstæðureikningurinn litast af yfirtöku nýrra dótturfélaga sem koma inn í samstæðuna frá og með 21. apríl. Auk safns atvinnueigna eiga Brimgarðar ehf. tvö dótturfélög, sem hafa komið að byggingu íbúðarhúsnæðis í Kópavogi, FS Glaðheima ehf. og Glaðsmíði ehf. Einnig eiga Brimgarðar ehf. stórt safn markaðshlutabréfa með mikla vigt í skráðum íslenskum fasteignafélögum. Umfang 14. júní ehf. er miklu minna en félagið á tvær fasteignir sem leigðar eru út til tengdra aðila. Heildareignir samstæðunnar jukust um 19.728 m.kr. við kaupin á þessum nýju samstæðufélögum.

Arðsemi íbúðaleigueigna

Leiguarðsemi íbúðaleigueigna Ölmu á fyrri helmingi ársins var 3,5% á ársgrundvelli.  Sú arðsemi er að mati stjórnar félagsins ekki ásættanleg til að réttlæta áframhaldandi fjárfestingu í eignasafni félagsins. Leitast verður við að bæta leiguarðsemina með því að selja óhagkvæmar leigueignir, tryggja að leiguverð endurspegli gæði eigna og markaðsleigu, ná meiri kostnaðarhagkvæmni í rekstri og stækka eignasafnið.

 

Matsbreytingar fjárfestingareigna

Alma endurmetur fjárfestingarfasteignir félagsins samkvæmt núvirtu áætluðu sjóðsstreymi eignanna. Matsverð fjárfestingareigna samkvæmt sjóðsstreymislíkani getur því ýmist verið hærra eða lægra en áætlað markaðsvirði eignanna til annarra nota en til útleigu. Matsbreyting fjárfestingareigna nam 2.731 m.kr. á fyrri hluta ársins. Aðal drifkrafturinn í matsbreytingunni er lækkun á ávöxtunarkröfu þar sem fjármagnskostnaður hefur verið lækkaður í takt við almenna þróun á markaði.

Afkoma af eignarhlutum í öðrum félögum

Verðbréfasafn Brimgarða ehf. varð hluti af samstæðu Ölmu frá og með 21. apríl.  Tekjur af eignarhlutum í öðrum félögum skiptist í matsbreytingu og tekjufærðan arð, samtals 1.404 m.kr.

Fjárfestingar í nýjum eignum

Í samræmi við stefnu félagsins að stækka eignasafnið, auka vægi höfuðborgarsvæðisins í eignasafninu og ná betri hagkvæmni í rekstri leiguíbúða hefur félagið fest kaup á tveimur nýbyggingarverkefnum. Annars vegar 16 íbúðum í Urriðaholtsstræti og hins vegar 83 íbúðum við Elliðabraut í Norðlingaholti. Félagið býst við að geta boðið þessar glæsilegu eignir til útleigu á haustmánuðum.

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar veita Ingólfur Árni Gunnarsson, framkvæmdastjóri, ingolfur@al.is og Sigurður Rúnar Pálsson, fjármálastjóri, sigurdur@al.is.

Viðhengi



Arshlutareikningur Alma ibuafelag hf._Samsta_30.6.2021_FINAL.pdf