Published: 2012-08-30 22:04:08 CEST
Reginn hf.
Reikningsskil

Árshlutareikningur Regins fyrstu sex mánuði ársins 2012

Árshlutareikningur Regins hf. 1. janúar til 30. júní 2012 var samþykktur af stjórn þann 30. ágúst.

  • Rekstrartekjur Regins hf. á fyrri helmingi ársins 2012 námu 1.681 milljón króna, sem samsvarar 18% hækkun samanborið við sama tímabil árið 2011.
  • Rekstrarhagnaður fyrir matsbreytingu og afskriftir var 919 milljónir króna sem samsvarar 24% hækkun samanborið við sama tímabil árið 2011.
  • Hagnaður eftir  skatta nam 983 milljónum króna samanborið við 66 milljónir króna á sama tímabili 2011.
  • Söluhagnaður nam 770 milljónum króna á fyrstu sex mánuðum ársins 2012.
  • Vaxtaberandi skuldir voru 18.063 milljónir króna í lok júní 2012 samanborið við 19.163 milljónir króna í árslok 2011.
  • Handbært fé frá rekstri nam 527 milljónum króna á fyrstu sex mánuðum ársins 2012 samanborið við 397 milljónir króna sama tímabil árið 2011.
  • Fjárfestingareignir í lok fjórðungsins voru metnar á 26.309 milljónir króna
  • Eiginfjárhlutfall er 33%.
  • Hagnaður á hlut á fyrstu sex mánuðum ársins 2012 var 0,80 samanborðið við 0,02 árið áður

 

Á tímabilinu var félagið skráð í Kauphöll Íslands (NASDAQ OMX Iceland hf.) að undangengnu almennu útboði þar sem 975.000.000 hlutir í félaginu voru seldir. Þessir hlutir samsvara 75% eignarhlut. Við skráningu félagsins var fjöldi hluthafa 1083.

Rekstur og afkoma

Afkoma Regins á fyrri hluta ársins 2012 var góð og í samræmi við áætlun félagsins. Rekstrartekjur námu 1.681 milljón króna og þar af námu leigutekjur 1.378 milljónum króna. Rekstrarhagnaður fyrir matsbreytingu og afskriftir nam 919 milljónum króna eða sem nemur 67% af leigutekjum. Sé litið framhjá 68 milljóna króna skráningarkostnaði þá er rekstrarhagnaður fyrir matsbreytingu og afskriftir sem hlutfall af leigutekjum 72%, sem er í samræmi við markmið félagsins.

Eignasafn og efnahagur

Eignasafn Regins samanstendur af fullgerðu atvinnuhúsnæði með háu útleiguhlutfalli og traustum leigutökum. Í lok fyrri árshelmings 2012 átti Reginn 30 fasteignir. Heildarfermetrafjöldi fasteignasafnsins var 153 þúsund fermetrar og þar af voru 132 þúsund útleigjanlegir fermetrar. Útleiguhlutfall fasteignasafnsins var yfir 94%. Stærstu eignir Regins eru verslunarmiðstöðin Smáralind í Kópavogi og Egilshöll í Grafarvogi.

Á tímabilinu var fasteignin Sundlaugavegur 30a seld frá félaginu samfara sölu á öllu hlutafé félagsins í Laugahúsum ehf. Söluhagnaður var 770 milljónir króna.

Fasteignasafn Regins er metið á gangvirði í samræmi við alþjóðlega reikningsskilastaðla (IFRS). Safnið er metið í lok hvers árs í tengslum við gerð ársreiknings og við matið er stuðst við núvirt framtíðar sjóðsflæði einstakra eigna. Til að árshlutauppgjör félagsins endurspegli rétta afkomu hverju sinni er í tengslum við árshlutauppgjör færð matsbreyting vegna þeirra eigna sem eru með verðtryggða leigusamninga. Horft er á hverja eign fyrir sig og verðmæti fasteignar borið saman við hlutfall verðtryggðra leigusamninga í fasteigninni. Matsbreyting á fyrri árshelmingi 2012 er 484 milljónir króna. Matsbreytingar 2011 voru færðar í árslok.

Framkvæmdir á vegum Regins hafa verið nokkuð umfangsmiklar á árinu. Endurbygging á fasteigninni Borgartúni 33 hefur staðið yfir, en áætlað er að framkvæmdum verði að fullu lokið í desember 2012. Borgartún 33 verður eftir endurbyggingu hágæða skrifstofuhúsnæði um 3.300 m2 að stærð.

Í Egilshöll lauk framkvæmdum við 22 brauta keilusal ásamt veitingastöðum og hefur staðið yfir lokaundirbúningur og frágangur vegna rekstrar sem hefst í lok ágúst. Framkvæmdum við Brúarvog 1-3 lauk í sumar.

Horfur í rekstri

Stjórnendur félagsins telja að horfur í rekstri séu góðar og engar vísbendingar eru um annað en að áætlanir félagsins standist. Vísbendingar eru um að íslenskt athafnalíf sé að taka við sér og því fylgja aukin umsvif á sviði útleigu atvinnueigna. Enn er þó mikil umframfjárfesting í atvinnuhúsnæði og umframframboð. Eftirspurn eftir vel staðsettu atvinnuhúsnæði til leigu hefur aukist og leiguverð á þeim stöðum eru að styrkjast.

Hjá félaginu er framundan undirbúningur að endurfjármögnun þess m.a. með því að kanna valkosti og greina kjör.

Í samræmi við fjárfestingastefnu félagsins er unnið að skoðun ýmissa fjárfestingaverkefna.

Um félagið

Reginn hf. er íslenskt fasteignafélag sem fjárfestir í, leigir út og annast rekstur á atvinnuhúsnæði. Fasteignasafn Regins telur 30 fasteignir og er heildarfermetrafjöldi fasteignasafnsins um 153 þúsund fermetrar, yfir 94% leigjanlegra fermetra er í útleigu. Stærstu fasteignir félagsins eru verslunarmiðstöðin Smáralind í Kópavogi og Egilshöll í Grafarvogi. Félagið er hlutafélag í dreifðu eignarhaldi og skráð í Kauphöll Íslands (NASDAQ OMX Iceland hf.). Félagið tók til starfa vorið 2009.

 

Nánari upplýsingar veitir:
Helgi S. Gunnarsson

Forstjóri Regins hf.

Sími: 512 8900 / 899 6262.

 

 


Reginn hf. - arshlutareikningur 30.6.2012 - undirritadur.pdf
Reginn hf. - Frettatilkynning Q2 2012.pdf