Landsbankinn hf.: Uppgjör Landsbankans fyrir fyrri helming ársins 2023 - Hagnaður Landsbankans á fyrri helmingi ársins var 14,5 milljarðar króna, þar af 6,7 milljarðar króna á öðrum ársfjórðungi.
- Arðsemi eiginfjár á fyrri helmingi ársins var 10,3%.
- Hreinar þjónustutekjur jukust um 6,1% á milli ára sem endurspeglar breidd í þjónustu og sterka markaðshlutdeild bankans.
- Hreinar vaxtatekjur jukust um 28,6%, aðallega vegna stærra útlánasafns og hærra vaxtastigs.
- Vaxtamunur er 2,9% og hækkar um 0,4 prósentustig samanborið við sama tímabil árið 2022. Betri ávöxtun á lausafé bankans hefur jákvæð áhrif á vaxtamun.
- Hlutfall kostnaðar af tekjum (K/T) var 36,1%.
- Útlán til fyrirtækja jukust um 47,5 milljarða króna á fyrri helmingi ársins, ef ekki er tekið tillit til gengisáhrifa, aðallega til fyrirtækja í byggingarstarfsemi og fasteignafélaga.
- Innlán hafa aukist um 5% frá áramótum.
- Vanskilahlutfall stendur í stað og framlag vegna virðisrýrnunar er í takt við áætlanir bankans.
Vaxtamunur í hlutfalli af meðalstöðu eigna nam 2,9% á fyrri helmingi ársins 2023 samanborið við 2,5% hlutfall á sama tímabili árið áður. Rekstrarkostnaður bankans var 14,2 milljarðar króna á tímabilinu en var 12,9 milljarðar króna á sama tímabili árið áður. Þar af voru laun og launatengd gjöld 8,3 milljarðar króna samanborið við 7,3 milljarða króna á sama tímabili árið áður. Annar rekstrarkostnaður var 5,8 milljarðar króna samanborið við 5,5 milljarða króna á sama tímabili árið áður. Kostnaður sem hlutfall af tekjum (K/T) á fyrri helmingi ársins 2023 var 36,1%, samanborið við 52% á sama tímabili árið 2022. Heildareignir bankans hækka um 109,3 milljarða króna á tímabilinu og námu 1.896 milljörðum króna í lok fyrri helmings ársins 2023. Útlán jukust um 51,0 milljarð króna á fyrri helmingi ársins 2023. Í lok fyrri helmings ársins 2023 námu innlán frá viðskiptavinum 1.012 milljörðum króna, samanborið við 967,9 milljarða króna í árslok 2022, og höfðu því aukist um 44,6 milljarða króna. Eigið fé Landsbankans var 285,1 milljarðar króna þann 30. júní sl. og eiginfjárhlutfall alls var 25,3%. Aðalfundur bankans, sem haldinn var 23. mars 2023, samþykkti tillögu bankaráðs um að greiða arð til hluthafa vegna rekstrarársins 2022 að fjárhæð 8,5 milljarðar króna og að greiðslan yrði tvískipt. Fyrri hluti arðgreiðslunnar að fjárhæð 4.251 milljón króna var greiddur þann 29. mars 2023. Síðari hluti arðgreiðslunnar að fjárhæð 4.251 milljón króna verður greiddur þann 20. september 2023. Arðgreiðslur bankans á árunum 2013-2023 munu því samtals nema 175,1 milljarði króna. Framkvæmdum við nýtt húsnæði bankans við Reykjastræti 6 er nú að mestu lokið og gert er ráð fyrir að lóðarfrágangi ljúki snemma í haust. Húsið er 16.500 fermetrar að stærð en byggingin í heild er um 21.500 fermetrar að bílakjallara og tæknirýmum meðtöldum. Samkvæmt áætlun sem gerð var í lok árs 2019 var gert ráð fyrir að kostnaður við bygginguna yrði 11,8 milljarðar króna, án verðbóta. Aukinn kostnaður við verkið nemur 3,4 milljörðum króna. Ástæðan fyrir auknum kostnaði er aðallega lengri verktími en gert var ráð fyrir, magnaukning á byggingarefnum og frávik sem komu upp á byggingartíma. Auk þess hefur byggingarvísitalan hækkað um 25% á verktímanum og er kostnaður vegna vísitölubreytinga áætlaður 1,4 milljarðar króna. Heildarkostnaður bankans við byggingu hússins verður um 16,5 milljarðar króna. Á móti kemur söluverð á þeim hlutum byggingarinnar sem bankinn mun ekki nýta og áætlað söluverð gamla Landsbankahússins í Austurstræti og tengdra bygginga, samtals um 7,8 milljarðar króna. Til viðbótar nemur árlegur sparnaður af flutningum í Reykjastræti um 600 milljónum króna og þar af er sparnaður vegna húsaleigu um 480 milljónir króna árlega. Lilja Björk Einarsdóttir, bankastjóri Landsbankans, segir: „Rekstur Landsbankans á fyrri helmingi ársins gekk vel og við náðum öllum okkar fjárhagsmælikvörðum. Hagnaður bankans var 14,5 milljarðar króna og arðsemi eigin fjár var 10,3%, sem er í samræmi við langtímamarkmið bankans. Undanfarið höfum við lagt mikla áherslu á að leiðbeina viðskiptavinum sem eru að glíma við hærri vaxtakostnað og þeim sem eru að leita að betri ávöxtun í verðbólguumhverfi. Við kynntum til leiks nýja verðtryggða Landsbók með styttri binditíma sem hentar vel bæði fyrirtækjum og einstaklingum sem vilja tryggja að sparnaður haldi sem best verðgildi sínu. Við setjumst niður með viðskiptavinum sem glíma við aukinn vaxtakostnað og finnum lausnir saman, hvort sem þær felast í lengingu lánstíma, endurfjármögnun eða öðrum úrræðum. Flutningar í nýtt hús bankans við Reykjastræti hafa gengið vel og við höfum náð öllum okkar mikilvægustu markmiðum um hagræðingu og nútímalega vinnuaðstöðu sem stuðlar að betri samvinnu. Við erum að flytja úr húsnæði sem er ríflega helmingi stærra og hagræðingin í rekstri er um 600 milljónir króna á ári. Líkt og aðrir sem hafa staðið í byggingarframkvæmdum undanfarið höfum við þurft að takast á við ýmsar áskoranir og teljum að í núverandi umhverfi getum við nokkuð vel við unað þó það sé aldrei ákjósanlegt þegar kostnaður er umfram áætlanir. Líkt og þegar Austurstræti 11 var endurreist fyrir 100 árum, þá byggjum við til framtíðar og það er alveg ljóst að flutningarnir munu skila betri rekstri og öflugri banka. Breytingin er stórkostleg fyrir starfsfólk og það er mín trú að krafturinn og bætt vinnuaðstaða skili sér í enn betri þjónustu við viðskiptavini. Það er áhugavert að draga saman árangurinn í rekstri bankans undanfarin sex ár sem er tíminn frá því að endanleg ákvörðun var tekin um að byggja húsið í Reykjastræti. Við höfum fækkað fermetrum í rekstri bankans um 36%, stöðugildum hefur fækkað um 20%, stafræn stórsókn hefur bætt þjónustuna enn frekar og við erum stolt af því að hafa mörg útibú og afgreiðslur um land allt. Við erum áfram í mikilli sókn, náum til fleiri viðskiptavina og höfum bætt við öflugum þjónustuþáttum líkt og færsluhirðingu. Landsbankaappið er framúrskarandi, áreiðanlegt og öruggt bankaapp sem viðskiptavinir geta treyst. Bankinn hefur sýnt og sannað að hann er í stöðugri framþróun og viðskiptavinir kunna vel að meta einfaldari og aðgengilegar lausnir.“
Fjárhagsdagatal Landsbankans Uppgjör 3F 2023 26. október 2023 Ársuppgjör 2023 1. febrúar 2024
Nánari upplýsingar veita:
Samskipti, samskipti@landsbankinn.is Fjárfestatengsl, fjarfesta@landsbankinn.is
|